Heimatilbúinn hármaski: Nýttu það sem til er!

Fröken Fabjúlöss hefur óttalega gaman að því að gramsa um í djúpum kitrum internetsins eftir heimatilbúnu hinu og þessu. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að eldhús- og ísskáparnir, þó svo að oft virðist þeir vera fullir af engu, eru oftar en ekki gullkista þegar kemur að húð, hár- og annarskonar útlitshirðu!

Í þetta skipti ákvað Frökenin að garfast fyrir um hárhirðu og hvernig nýta mætti almenn matvæli í þeim bransanum. Þar sem gerð hárs getur verið jafn misjöfn og mennirnir eru margir gengur kannski ekki alveg að vaða í hvaða hráefni sem er og dúndra í hvaða hártýpu sem er og þessvegna er gott að hafa eftirfarandi í huga þegar haldið er af stað í átt að ísskápnum:

Jógúrt:
Mýkir og styrkir hárið þar sem það býr yfir nátturulegum fitum og er próteinríkt. Ef hárið er að eðlisfari feitt, nota frekar léttjógúrt! Já, og að sjálfsögðu nota hreina jógúrt þar!

Hunang!
Dregur úr rakatapi, og viðheldur rakanum í hárinu.

Kókosmjólk!
Eins og jógúrtin inniheldur kókosmjólkin nátturlegar fitur og próten sem mýkja og styrkja hárið.

Egg!
Ekki bara góð í að gera hanakamb!! Egg eru einstaklega góð próteintrítment sem draga úr því að hárið "brotni" og klofni.

Avocado!
Styrkir hárið og gefur því fallegann glans.

Bananar!
Mýkja hárið og eru rakagefandi.

Haframjöl!
Mýkir hárið og það verður meðfærilegra ásamt því að næra hársvörðinn. Flestum hártýpum (nema feitu hári) hentar einfaldlega að sjóða haframjölið í vatni (samt ekki alveg í graut) og sigta svo mjölið frá, setja vatnið í hárið og láta það vera í sirka 15 mínútur. Fyrir feitt hár er hægt að sjóða saman 1-2 msk af haframjöli og bolla af vatni (ekki sigta), bera þetta í hárið og hafa í 20 mínútur og skola úr.

Bjór!
Jebb, þið lásuð rétt, Frökenin mælir með að nota volgann (stofuhita) flatann bjór  í hárið!!! Fyrir feitt hár er bjór algjör snilld til að draga úr fitufaktornum, styrkja hárið og svo kemur þessi glymrandi glans á eftir! Fyrir aðrar hártýpur en feitt hár þarf að sjóða bjórinn áður en hann er notaður til að draga alkohólið úr honum.

Mæjónes!
Mæjónes er beisikklí bara egg blandað saman við ólífuolíu! Mjög góð raka og próteinblanda fyrir hárið þó að tilhugsunin um að klína mæjó í hárið á sér sé kannski ekki sú allra girnilegasta...

Ólífuolía!
Mýkir og nærir hárið og dregur fram fallegann glans. Einnig nærir olían hársvörðinn.

Kókosolía!
Nærir hárið einstaklega vel, betur en ólífuolían! Kókosolían er sérstaklega góð í slitið hár!

Eftir að hafa rennt í gegnum þennann lista er Fröken Fabjúlöss nú eiginlega bara orðin svöng og með óhóflega löngun í hafragraut... En svona til að ljúka þessum hárfína pistli finnst Frökeninni ekki úr vegi að láta fljóta með nokkrar uppskriftir að undursamlega skemmtilegum heimatilbúnum djúp-hárnæringum!

Næring fyrir feitt hár!
Mörg af hráefnunum hérna að ofan geta hreinlega gert illt verra ef notaðar í feitt hár. Bjór er eitt besta vopnið í feitt hár að mati spekúlanta netheima, en einnig er haframjölsmaskinn sem Frökenin benti á í haframjölshlutanum vel brúklegur og rúmlega það. En svo er einnig hægt að taka 50 gr af léttjógúrt (hreina) og eina eggjagulu og blanda saman. Smella þessu í nýþvegið hárið og hafa í 30 mínútur og skola svo úr.

Prótein hármaski!
Ef hárið er mikið litað, sléttað eða blásið eru reglulegar próteintrítmentir mjög góðar og styrkja hárið. Bara um að gera að hafa það hugfast að setja hárnæringu í hárið eftir að maskinn hefur verið skolaður úr!

Innihald:
1 egg
1/2 bolli kókosmjólk
1/2 bolli jógúrt

Blanda vel saman og bera í hárið eftir að búið er að þvo það með sjampói. Láta blönduna vera í hárinu í allavega 15 mínútur. Skola vel úr með volgu vatni.

Djúpnæring fyrir þurrt hár!
Hentar einstaklega vel fyrir þurrt krullað hár, þó svo að þessi maski sé dásemd fyrir allt hár sem er í þurrari kantinum!

Innihald:
1/2 banani
1/2 avocado
2 teskeiðar hunang
1/2 bolli kókosmjólk
1 teskeið eplaedik

Smella öllum hráefnunum í blandara og láta ganga þangað til blandan er orðin mjúk og fín. Ef blandan er of þykk má bæta smá meiri kókosmjólk út í hana. Bera í hárið og láta vera í sirka 30 mín, skola svo úr.

Það sem Fröken Fabjúlöss finnst svo skemmtilegt við þessa tilraunastarfsemi í eldhúsinu er að það er alltaf hægt að laga það sem verið er að búa til eftir þeirri hártýpu sem verið er að vinna með, það er alltaf til eitthvað hráefni sem hentar!

Fröken Fabjúlöss mælir með að þær dásemdardívur sem lesa þennann pistil prufi sig áfram og umfram allt hafi gaman að þessu!!!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir