Hinir brottflognu - Þegar ég sagði Tútta að nú þyrfti ég að fara heim að borða, þá var honum öllum lokið

Hver er maðurinn?  -  Þorsteinn Reynir Þórsson – kallaður Steini, nema á Króknum þar er ég iðulega kallaður Elli! 

Hverra manna ertu? - Sonur Guðbjargar Bjarman (Lillu) og Þórs Þorvaldssonar. 

Árgangur? Ég er fæddur 28.04.60, en tilheyri nú samt '59 bekkjar-árganginum.

Hvar elur þú manninn í dag? Er búinn að festa rætur í Garðabænum eftir að hafa búið á yfir 25 stöðum síðustu 35 árin. 

Fjölskylduhagir?  Bý með yngsta syninum í sátt og samlyndi og er svo í nærbúð með Elísabetu Böðvarsdóttur. 

Afkomendur? Gísli Þór 26 ára, Sigrún 23 ára og Sveinn Hlynur 17 ára, en ekkert bólar á barnabörnum ennþá. 

Helstu áhugamál? – Lengi vel komst nú lítið að annað en Frjálsar íþróttir en þegar aldurinn færðist yfir og skrokkurinn fór að gefa sig þá snéri ég mér að golfinu og telst í dag vera með frekar slæmt tilfelli af golf-bakteríunni.  Reyndar finnst mér líka mjög gaman af gönguferðum með eða án skíða, innan lands sem utan.  

Við hvað starfar þú? – Ég starfa sem hugbúnaðar-sérfræðingur hjá Skýrr.

 Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.  

Heima er ..................... fínt að sitja í Lazyboy-num, horfa á golf í sjónvarpinu, spila póker á netinu og jafnvel fylgjast aðeins með Facebook-vinunum í leiðinni. Svo er reyndar ekki verra að vera með smá rauðvínstár og 70% síríus súkkulaði á kantinum. 

Það er gaman......................... í góðra vina hópi og golfi. 

Ég man þá daga er........................ búningsklefarnir í sundlauginni voru niðri undir lauginni í vestari endandum.  Þá þurfti maður að ganga/hlaupa allan ganginn niðri meðfram lauginni og svo upp stigann til að komast ofan í laugina.  Þetta gat verið mjög kalsamt og til að redda því þá fundum við strákarnir uppá því þjóðráði að skella okkur undir „kalda kranann“.  Þetta var eins og nafnið gefur til kynna krani hjá sturtunum sem kom eingöngu kalt vatn úr og mikið af því.  Það var að vísu helvíti kalt að sitja undir kaldri bununni en í staðinn varð manni ekki kalt á leiðinni upp í laugina.  En þessi langa leið ofan í laugina kom samt ekki í veg fyrir að Árni Malla hljóp alla þessa leið og reyndar einn bónus-hring í kringum laugina áður en hann áttaði sig á því að hann hafði gleymt að fara í sundskýluna!

Ég man reyndar líka þegar skíðasvæðið á Króknum var bara Grænaklaufin og Nafirnar.  Þá var að sjálfsögðu engin skíðalyfta og þeir fáu sem áttu skíði þurftu því að arka upp með skíðin á öxlunum eða nota bara hliðar saman hliðar alla leiðina upp.  Kunnáttan var heldur ekki mikil enda græjurnar oft ekki mjög gæfulegar.  Menn brunuðu því bara beint niður og þeir allra bestu gátu svo skransað þegar komið var niður á jafnsléttu.  Þetta var náttúrulega ekkert sérstaklega skemmtilegt svo að að við vorum miklu meira og reyndar mun betri á snjóþotunum.  Marga daga þvældist maður þarna í brekkunum á snjóþotu og að sjálfsögðu fundum við svo upp á alls kyns leikjum og keppnum til að auka á gamanið.  En þetta var nú reyndar fyrir tíma gróðurhúsa-áhrifanna, þegar það kom ennþá snjór á Króknum.

Ein gömul og góð sönn saga.................. Svona af því að Jói spurði um grænu frostpinnana þá rifjaðist upp fyrir mér saga af alræmdu ísáti mínu á þessum árum.  Sauðárkrókur var mikið sjoppu-bæli á mínum yngri árum og ein helsta sjoppan var Tútta-bar.  Þar var Rauða-kross tíkalla kassi sem tók oft við framlögum okkar til styrktar Rauða Krossinum.  Ég hafði það fyrir vana að ef ég græddi meira en 100 kr., þá keypti ég mér íspinna og hélt svo áfram að spila fyrir afganginn.  Ef ég komst svo aftur yfir 100 kr., þá endurtók ég leikinn.  Oftast urðu þetta nú ekkert mjög margir ísar en einn daginn gekk mér allt í haginn í spilakassanum og dundaði ég við þessa iðju lengi dags.  En þegar leið að kvöldmat, þá sagði ég Tútta að nú þyrfti ég að fara heim að borða, þá var honum öllum lokið.  Það gæti nú bara ekki verið að ég ætlaði að borða kvöldmat eftir að hafa hakkað í mig íspinna stanslaust í nokkra klukkutíma.  En matarlystin var góð á þessum árum og eftir kvöldmat þá fór ég svo aftur út í sjoppu-rölt og þá fékk maður sér að sjálfsögðu nokkra íspinna í viðbót!

Ég var aðeins að lesa fyrri pistla frá brottflognum og þegar ég las um hversu tapsár Gummi Sveins var þá mundi ég eftir öðrum tapsárum kappa og það mætti kannski bæta þessari sögu við.

Á mínum uppeldisárum á Króknum þá var fótboltinn vinsæll eins og hann er sjálfsagt enn í dag.  Það var þó einn galli á gjöf Njarðar að það voru ekki allir sem áttu fótbolta og því þurfti oft að byrja á því að finna einhvern sem átti fótbolta.  Alli (Munda í Tungu) var einn af þeim sem alltaf átti fótbolta og var oftast tilbúinn að koma í fótbolta.  Alli var hins vegar alveg rosalega tapsár og ef illa gekk þá fór hann iðulega í fýlu og þá kom þá alltaf sama viðkvæðið, "ég er farinn heim og ég tek boltann með mér."  Þetta var mjög alvarleg hótun og ekkert annað að gera en að reyna að róa Alla aðeins niður og lofa bót og betrun.  Oftar en ekki þá bráði nú fljótt af Alla og við gátum haldið áfram í fótboltanum.  Þessi uppákoma endurtók sig svo iðulega nokkrum sinnum þangað til Alli varð aðeins of fúll og gerði alvöru úr hótuninni.

 

Spurt frá síðasta viðmælanda.................... Smakkast grænu frostpinnarnir í dag eins og í gamla daga?  

Svar............ Þeir eru væntanleg eins á bragðið núna en þeir smakkast hins vegar ekki jafn vel og í gamla daga.  Annars man Jói þetta ekki alveg nógu vel því að frost/ís-pinna smekkurinn hjá mér þroskaðist töluvert á þessum árum.  Grænu frostpinnarnir voru reyndar lengi í uppáhaldi en svo komu íspinnarnir sterkir inn, fyrst vanillu-, svo pop-, þá núgat- og svo aftur pop-pinninn og hann er enn í uppáhaldi.  

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi? 

Nafn............. Magnús Gíslason 

Spurningin er.................. Þegar ég var í gagnfræðaskólanum á Króknum þá sátu þeir iðulega hlið við hlið Jói Hilmis og Maggi á Vöglum og Jói var alveg höfðinu hærri í sæti.  Jói svindlaði reyndar aðeins af því að hann stóð (sat á hækjum sér) iðulega í stólnum.  Hins vegar þegar þeir stóðu upp þá voru þeir nokkuð álíka háir, enda er líklega leitandi að ólíkari mönnum í vaxtalagi, Maggi klofinn upp að öxlum en Jói hins vegar ákaflega stuttur til klofsins!  Í dag er Maggi hins vegar töluvert hávaxnari en Jói og hefur reyndar vaxið okkur bekkjarfélögunum flestum yfir höfuð og því spyr ég, Maggi ertu örugglega hættur að stækka?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir