Hlaut 6.5 milljón króna styrk frá Comenius Regio
Fræðsluþjónusta Skagfirðinga hefur hlotið rúmlega 6.5 milljón króna styrk til verkefnis sem lýtur að því að rannsaka aðferðir stjórnenda og fagfólks í skólakerfinu við að skipuleggja áhugavert og hvetjandi lærdómsumhverfi fyrir börn á aldrinum 5-8 ára. Þetta kom fram á 80. fundi fræðslunefndar þann 4. september sl.
Á fundinum kemur fram að fræðsluþjónusta Skagafjarðar hafi sótt um styrkinn í febrúar sl., í samvinnu við fræðsluþjónustu sveitarfélagsins Óðinsvéa í Danmörku, til einnar af menntaáætlunum Evrópusambandsins, Comenius Regio, sem er áætlun um samstarf svæða í Evrópu.
„Verkefni þetta hlaut jákvæðar undirtektir og hefur Fræðsluþjónusta Skagfirðinga hlotið rúmlega 6.5 milljón króna styrk til verkefnisins sem sótt var um,“ segir í fundargerð fræðslunefndar sem jafnframt fagnar þessum styrk og óskar þátttakendum og skólasamfélaginu öllu velfarnaðar í verkefninu.
