Hofsstaðir hlutu viðurkenningu á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi
Venju samkvæmt voru viðurkenningar veittar, að þessu sinni voru þær þrjár; Fyrirtæki ársins, Viðurkenning fyrir störf í þágu ferðaþjónustu og Hvatningarverðlaun ársins.
Fyrirtæki ársins
Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi.
Hofsstaðir í Skagafirði bjóða upp á úrvals gistingu og veitingar og eigendurnir hafa metnaðarfull áform um að bæta enn frekar við framboð á þjónustu. Frá því að hótelið opnaði árið 2010 hefur mikil áhersla verið lögð á að gestir njóti nærumhverfisins í sveitinni í Skagafirði, komi við á áhugaverðum stöðum á svæðinu og nýti sér afþreyingu sem aðrir bjóða upp á. Þannig hefur áherslan verið lögð á að gestir dvelji lengur. Einnig hefur áherslan á hráefni úr héraði alltaf verið leiðarljós á veitingastaðnum og stuðlað að sjálfbærni fyrirtækisins.
Eigendurnir Guðný og Þórólfur hafa tekið þátt í starfi á vettvangi Markaðsstofunnar en einnig í samstarfi á svæðinu. Þannig hafa þau stuðlað að þróun áfangastaðarins Norðurlands með jákvæðum hætti og verið til fyrirmyndar í uppbyggingu og vöruþróun.
Störf í þágu ferðaþjónustu
Viðurkenninguna fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi fær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Í ár er það Jóhannes Geir Sigurgeirsson frá Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Saga ferðaþjónustu á Öngulsstöðum nær rúmlega þrjátíu ár aftur í tímann, þegar fjósi og hlöðu var breytt í veitingastað og gistihús. Um tíma var reksturinn leigður út en árið 2012 tók Jóhannes aftur við rekstrinum og stofnaði Lamb Inn, þar sem lögð var áhersla á lambakjöt á veitingastaðnum eins og nafnið gefur til kynna. Jóhannes hefur látið til sín taka á vettvangi ferðaþjónustu, hvort sem er á Norðurlandi eða landsvísu. Þar hefur hann nýtt reynslu sína af þingmennsku og stjórnarsetu í hinum ýmsu félögum og fyrirtækjum, til að efla áfangastaðinn Norðurland og stuðla að samstarfi innan ferðaþjónustu og faglegrar þróunar hennar.
Hvatningarverðlaun
Í Þistilfirði, á bænum Holti er gistiheimilið Grásteinn Guesthouse rekið af hjónunum Hildi Stefánsdóttur og Sigurði Þór Guðmundssyni. Í ár hljóta þau Hvatningarverðlaun, sem eru veitt til fyrirtækis sem býður upp á þjónustu sem byggir vel undir ímynd Norðurlands og er orðið þekkt meðal innlendra og erlendra ferðamanna fyrir einstaka upplifun.
Þau Hildur og Sigurður hafa látið til sín taka í samstarfi bæði á öllu Norðurlandi en einnig á sínu nærsvæði. Slíkt sást einna best í sumar þegar þau buðu í fyrsta sinn upp á nýja upplifun fyrir farþega smærri skemmtiferðaskipa, tóku á móti þeim ýmist í fjörunni á þeirra landareign eða á bryggjunni við Þórshöfn þegar veðuraðstæður leyfðu ekki annað. Heimafólk fór með ferðamenn í dagsferðir um nágrenni Grásteins í Þistilfirði, gaf þeim innsýn í líf fólks á Norðurhjara, menninguna og bauð þeim að smakka á hráefnum úr heimabyggð.
Þessar ferðir gengu frábærlega og sýnir fram á að nýsköpun þarf ekki að vera svo flókin. Þegar trú heimamanna og fagleg nálgun helst í hendur, gerast góðir hlutir. Því miður komust þau Hildur og Sigurður ekki með á Uppskeruhátíð, en viðurkenningunni verður komið til þeirra við fyrsta tækifæri.
/fréttatilkynning frá Markaðsskrifstofu Norðurlands
