Höfuðstöðvar RARIK til síns heima

Halla Signý Kristjánsdóttir. Aðsend mynd.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Aðsend mynd.

Undirrituð hefur lagt inn þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi ályktar að stefna skuli að flutningi höfuðstöðva RARIK á landsbyggðina og að kannað verði á grundvelli hagsmuna félagsins hvar væri hentugast að byggja upp höfuðstöðvarnar og efla starfsstöðvar RARIK um landið.

Höfuðstöðvar RARIK eru í Reykjavík. Um 90% af dreifikerfi raforku í landinu eru í umsjá RARIK og það í flestum sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, Reykjaness og Vestfjarða. Mikilvægi RARIK fyrir samfélagið í heild er óumdeilt, starfsemin er viðamikil og dreifð um allt land. Finna má bækistöðvar félagsins meðal annars á Selfossi, Höfn í Hornafirði, Seyðisfirði, Sauðárkróki, Siglufirði, Borgarnesi og í Ólafsvík. Meginstarfsemi RARIK fer fram á landsbyggðinni auk þess sem allar virkjanir félagsins eru staðsettar út á landi. Því tel ég að góð rök séu fyrir því að færa höfuðstöðvarnar nær meginstarfsemi félagsins og út á land.

Breyttir tímar

Það ástand sem nú ríkir kallar fólk heim og fjarvinna er orðin staðreynd, störf án staðsetningar eru ekki lengur draumsýn heldur viðkennd og jafnvel eftirsótt. Það er ekki langt síðan maður heyrði þau rök að það væri nauðsynlegt að staðsetja svo mikilvægar höfuðstöðvar, líkt og höfuðstöðvar RARIK eru, á höfuðborgarsvæðinu. Þar væri önnur mikilvæg stjórnsýsla sem þyrfti að hafa samskipti við og vegalengdir á milli stjórnsýslustofnana stuttur. En sú viðmiðunarvegalengd hefur heldur betur breyst bara á þessu ári. Flutningur sem þessi gerist þó ekki á einum degi, heldur þarf aðlögunartíma svo vel takist til.

Fjölbreyttari störf á landsbyggðina.

Fólksfækkun á landsbyggðinni vegna flutninga til höfuðborgarsvæðisins hefur lengi verið meginvandamál samfélaga á landsbyggðinni. Meðal helstu ástæðna fólksfækkunarinnar er skortur á störfum og lítil fjölbreytni starfa. Atvinnuöryggi og fjölbreytni starfa tryggir stöðugleika í íbúafjölda, laðar frekar til sín nýja íbúa og stuðlar að því að ungt fólk snúi heim aftur eftir nám. Skortur á fjölbreytni skekkir hlutfall þeirra aldurshópa sem eru almennt virkastir á vinnumarkaðinum. Þetta leiðir til fækkunar íbúa sem hefur í för með sér skerðingu á útsvarstekjum sveitarfélaga. Samkvæmt nýrri skýrslu frá Byggðastofnun hefur ríkistörfum fjölgað á fimm ára tímabili frá 2013-2019 um 0.8%. Hlutfall stöðugilda ríkistarfa af mannfjölda á vinnualdri er hæst á höfuðborgarsvæðinu, þótt þetta ár gæti birt aðrar tölur en það eru óvenjulegar aðstæður. Það hefur því hallað á landsbyggðina hvað varðar dreifingu ríkisstarfa.

Mikilvægt er að tryggja jöfn búsetuskilyrði um land allt. Með því að dreifa ríkisstörfum jafnt um landið er hægt að nálgast betur markmið ríkisstjórnarinnar um að tryggja öllum landsmönnum jöfn tækifæri ásamt því að halda öllu landinu í blómlegri byggð. Það yrði þó aðeins gert þegar réttu skilyrðin eru fyrir hendi, sem flutningsmenn telja vera fyrir hendi í tilviki flutnings RARIK á landsbyggðina.

Í anda núverndi stjórnarsáttmála

Í sáttmála Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis kemur fram að stefnt sé að því að tryggja öllum landsmönnum jöfn tækifæri, ásamt því að halda landinu öllu í blómlegri byggð. Þá kemur fram að horft verði m.a. til byggðaaðgerða sem tíðkast í nágrannalöndunum við mótun aðgerða hér á landi.  Með því að tryggja landsmönnum jafnan aðgang að atvinnutækifærum og jöfn lífskjör um land allt sköpum við betra samfélag. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir
7. þingmaður NV kjördæmis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir