Húnavakan að hefjast

Nú er Húnavakan í þann mund að hefjast en hún verður sett formlega kl. 18:45 á morgun. Íbúar Blönduóss og nágrennis verða væntanlega í önnum í kvöld við að skreyta umhverfi sitt í bak og fyrir með rauðum lit og ísbjörnum og verða veitt verðlaun fyrir best skreytta húsið. Að verklokum eru svo hverfin eða göturnar hvött til að slá saman í grill. Í kvöld kl. 22 verður haldið Blö Quiz í félagsheimilinu þar sem þrjú efstu sætin vinna til verðlauna.

Á morgun, föstudag, verður opið hús hjá mörgum fyrirtækjum á Blönduósi þar sem gestum og gangandi verður boðið að kynna sér starfsemina og jafnvel að gera góð kaup á völdum vörum. Kvennaskólinn, Þekkingarsetrið og Vinir Kvennaskólans taka á móti gestum milli kl. 13:00 og 17:00. Þá verður Heimilisiðnaðarsafnið opið kl. 10-17 um helgina þar sem sýningin „Prjónað af fingrum fram“ stendur nú yfir.

Eftir setningarathöfnina kl. 18:45 verður svo efnt til RISA kótelettukvölds og kvöldskemmtunar í félagsheimilinu. Þar mun eftirherman Jóhannes Kristjánsson fara með gamanmál, frumflutt verður nýtt lag Frjálsa kótelettufélagsins í Austur-Húnavatnssýslu og Frikki trúbador heldur uppi stuðinu. Miðapantantir á kótelettukvöld eru á netfanginu hunavaka@blonduos.is eða í síma 691-8686 (Kristín) og 893-4331 (Valli). Hægt er að lesa viðtal við Valdimar Guðmannsson, helsta forsprakka Frjálsa kótelettufélagsins, í frétt á Húni.is.

Kl. 20:00 verður leikur á Blönduóssvelli þar sem Kormákur/Hvöt og Kóngarnir eigast við og ætlar Ísgel að bjóða áhugasömum á leikinn. Veitingastaðurinn Retro á Hótel Blöndu verður opinn til 22:30 þar sem hljómsveitin Feðgarnir heldur uppi stuðinu og kl. 23:00 hefst dansleikur með Á móti sól í félagsheimilinu. Á laugardag heldur svo gleðin áfram með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. 

Dagskrá Húnavöku má nálgast hér

Fleiri fréttir