Húnavatnshreppur veitir styrki til ýmissa málefna

Þingeyrarklausturskirkja. Mynd: Northwest.is
Þingeyrarklausturskirkja. Mynd: Northwest.is

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps kom saman til fundar þann 8. nóvember síðastliðinn. Meðal efnis á dagskrá fundarins voru afgreiðslur á styrkbeiðni frá ýmsum aðilum. Samþykkti sveitarstjórn að úthluta styrkjum til ýmissa verkefna sem tengjast félagsstarfsemi, menntun, menningu og fleiru.

Hæsti styrkurinn , ein milljón króna, rennur til Textílseturs Íslands á Blönduósi vegna þjónustusamnings um rekstur fyrir árið 2018. Sóknarnefnd Þingeyrarklausturskirkju fær 500.000 krónur vegna sumaropnunar kirkjunnar en forsenda fyrir fullum styrk er að kirkjan verði opin frá 1. júní til og með 31. ágúst sumarið 2018. Reiðveganefnd Hestamannafélags Neista fær 400.000 krónur vegna framkvæmda nefndarinnar á næsta ári og 300.000 krónur fær Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps vegna starfsemi kórsins. Þá fær Ungmennafélagið Geisli 280.000 krónur til styrktar starfsemi félagsins.

Meðal annarra málefna sem tekin voru fyrir á fundinum var fyrri umræða um fjárhagsáætlun fyrir árið 2018. Sveitarstjóri kynnti áætlunina og farið var yfir rekstur málaflokka, eignarsjóðs og b hluta fyrirtækja. Fjárhagsáætlun var vísað til síðari umræðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir