Húnvetningafélagið í Reykjavík hefur stutt vel við bakið á Byggðasafninu
Undanfarið ár hefur Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði fengið yfirhalningu. Í frétt á vef Húnaþings vestra segir að Húnvetningafélagið í Reykjavík hafi styrkt safnið rausnarlega og hafa nú öryggismál þess verið bætt svo um munar. Öryggiskerfi byggðasafnsins var uppfært, safninu var skipt í þrjú brunahólf og tvær eldvarnarhurðar settar upp og sýningasölunum tveim sem tengjast með millibyggingunni með andyri safnsins.
„Nú eru sýningarsalirnir aðskildir millibyggingunni og er safnið þrjú brunahólf. Auk þess voru sex léttvatnsslökkvitæki, níu lítra, afhent safninu og sett upp. Sett var upp ný rafmagnstafla með neistavörn, sem er nýjung hér á landi og bætir öryggis safnsins til muna, en auk þess var öllum raflögnum frá töflunni skipt út og breytt þannig að þegar slökkt er á ljósum á safninu þá er rafmagn aðeins á þeim búnaði sem tilheyrir öryggiskerfi hússins. Neyðarlýsing var sett upp um allt safnið og eldvarnargler sett upp í Ófeigsskála og neyðarútgangur einnig settur upp á vesturvegg skálans. Einnig var almennt öryggiskerfi byggðasafnsins uppfært og settar upp betri öryggismyndavélar utandyra en einnig settar upp myndavélar innandyra. Safnið er nú búið öflugu öryggiskerfi sem nemur hreyfingu, vatnsleka og bruna og minnkar hættuna á tjóni sem kann að koma upp. Einnig má nefna að Húnvetningafélagið gaf safninu einnig skiltin sem standa upp á þjóðvegi og vísa veginn að safninu,“ segir í fréttinni.
Er Húnvetningafélaginu þakkað fyrir þessa rausnarlegu gjöf til safnsins sem hefur bætt öryggi safngripa.
Fram kemur í fréttinni að tengsl byggðasafnsins og Húnvetningafélagsins séu sterk í sögu safnsins en Húnvetningafélagið hafði brautargöngu um að stofnað yrði til byggðasafns fyrir Húnavatnssýslurnar tvær, Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu. „Um miðja síðustu öld hófst undirbúningur félagsins að stofnun safnsins en farnar voru sérstakar söfnunarferðir um sveitir sýslnanna. Strandasýsla kom um svipað leyti inn í vinnuna og ákveðið var að stofna til sameiginlegs byggðasafns þessara þriggja sýslna. Húnvetningafélagið kom einnig að uppsetningu safnsins ásamt Þjóðminjasafni Íslands og var safnið formlega opnað um mitt sumar árið 1967.“