Hvergerðingar sigruðu í Síkinu
Það var fátt um fína drætti í Síkinu í gær þegar Hamarsmenn úr Hveragerði unnu sanngjarnan sigur á döpru liði Tindastóls og sendu Stólana út úr Fyrirtækjabikar KKÍ. Lokatölur urðu 63-72 fyrir gestina en bestur í liði Tindastóls var Helgi Rafn sem var með 18 stig og sleit niður 20 fráköst.
Leikurinn fór ágætlega af stað því eftir tveggja mínútna leik var staðan 10-12 fyrir Hamar. Síðan nánast hættu leikmenn að hitta í körfuna. Þó voru gestirnir uppátækjasamari í þeim efnum og þegar fyrsti leikhluti var úti var staðan 13-21. Helgi Rafn og Rikki drógu vagninn fyrir Stólana í öðrum leikhluta. Framlag erlendu leikmannanna var dapurlegt; Dimitar Petrushev var leikstjórnandi Stólanna og var duglegur við að hlaupa með boltann en gekk illa að koma honum frá sér og ekki var skotnýtingin upp á marga fiska, Dragoljub Kitanovic var hreint út sagt skelfilegur en þessi stóri kappi skoraði 3 stig í leiknum en náði að krækja sér í 5 klaufalegar villur á 16 mínútum. Stólarnir náðu ágætum kafla undir lok fyrri hálfleiks og náðu að minnka muninn í eitt stig, 34-35.
Stuðningsmenn Tindastóls vonuðust til að strákarnir hristu af sér slenið í síðari hálfleik en sú varð ekki raunin. Hálfleikurinn var reyndar hnífjafn og spennandi þó skemmtunin hafi verið takmörkuð. Skömmu fyrir miðjan þriðja leikhluta náðu Stólarnir tveggja stiga forskoti og útlit fyrir góðan kafla. En leikmenn voru óskynsamir og glutruðu boltanum frá sér hvað eftir annað. Gestirnir voru reyndar ekki mikið skárri en þeir voru þó alltaf skrefinu á undan því Stólunum virtist fyrirmunað að ná sæmilegum leikkafla.
Enn munaði einu stigi þegar fjórði leikhluti hófst, staðan 48-49! Enn var sama baráttan í gangi og nokkrir leikmenn komnir með fjórar villur í báðum liðun og aðeins Kitanovic kominn útaf. Hvergerðingar voru yfirleitt tveimur stigum yfir en þegar 5 mínútur voru eftir komust Stólarnir stigi yfir, 60-59, en gestirnir svöruðu með 3ja stiga körfu og Stólarnir fóru á taugum á lokamínútunum; spiluðu vörnina illa og sóknir liðsins fóru forgörðum. Lokatölur 63-72.
Lið Tindastóls lék í gær án kana en kaninn sem kom til liðs við Stólana reyndist nýkominn úr uppskurði og ekki til í slaginn. En ekki hvað? Sem fyrr segir voru það Helgi Rafn og Rikki sem voru skástir í liði Tindastóls.
Þegar tölfræði leiksins er skoðuð má sjá að þriðjungur stiga Tindastóls er skoraður af vítalínunni eða 21 stig í 32 tilraunum. Liðin tóku álíka mikið af skotum utan 3ja stiga línunnar og settu bæði niður 6 3ja stiga körfur. Lið Hamars tók hins vegar 38 skot innan teigs á meðan Stólarnir tóku aðeins 21 og var nýtingin innan teigs svipuð en þó heldur skárri hjá Stólunum. Lið Tindastóls hefur sennilega varla skorað eina einustu körfu úr hraðaupphlaupi í leiknum.
Stuðningsmenn Stólanna voru heldur ekki upp á marga fiska, neikvæðir og eiginlega draugfúlir flestir, og kannski ekki furða. Þó er rétt að minna stuðningsmenn á að styðja liðið sitt – það er vænlegra til árangurs!
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.