Íbúafundur á Blönduósi um verndarsvæði í byggð

Gamli bærinn á Blönduósi. Mynd: FE
Gamli bærinn á Blönduósi. Mynd: FE

Næstkomandi miðvikudag, þann 17. janúar, er boðað til almenns íbúafundar á Blönduósi þar sem kynnt verður tillaga að verndarsvæði í byggð á Blönduósi. Er þetta annar íbúafundurinn sem haldinn er vegna verkefnisins. Hann verður í Félagsheimilinu á Blönduósi og hefst klukkan 17:00.

Á fundinum á miðvikudaginn munu fulltrúar frá Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur kynna drög að tillögu um verndarsvæði og ræða málin við íbúa og aðra hlutaðeigandi aðila. Eru allir sem áhuga hafa á verkefninu hvattir til að mæta á fundinn.

Verndarsvæði í byggð er byggð innan afmarkaðs svæðis sem nýtur samkvæmt ákvörðun ráðherra sérstakrar verndar vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis. Lög þess efnis tóku gildi árið 2015. Markmið þeirra eru að vernda menningarsöguleg og listræn verðmæti, bæta umhverfið og auka aðdráttarafl hverfa og bæjarhluta.

Í auglýsingu um fundinn á heimasíðu Blönduósbæjar segir: „Gamli bæjarhlutinn á Blönduósi (innan ár) á sér langa sögu, sem varðveitt er í gömlum húsakosti og heildstæðu svipmóti byggðarinnar. Fæstir þéttbýlisstaðir á Íslandi geta státað af slíkum bæjarkjarna og því er mikilvægt að varðveisla hans og uppbygging takist vel til. Slíkt gæti falið í sér fjölbreytt tækifæri fyrir íbúa á Blönduósi og styrkt bæjarfélagið í heild sinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir