Íbúðarhús í Geldingaholti eyðilagðist í bruna

Húsið er gjörónýtt og hefur slökkvistarf staðið yfir síðan rétt fyrir fimm í dag. Mynd: AGS
Húsið er gjörónýtt og hefur slökkvistarf staðið yfir síðan rétt fyrir fimm í dag. Mynd: AGS

Íbúðarhús í Geldingaholti í Skagafirði er rústir einar eftir að eldur kviknaði þar í dag. Talið er að glóð hafi kviknað þegar starfsmenn Skagafjarðarveitna voru við vinnu vegna nýs inntaks fyrir heitt vatn í húsið. Slökkviliði Skagafjarðar barst útkall klukkan 16:39 í dag. Slökkvistarf hefur reynst erfitt og er stendur enn yfir. 

„Þetta hefur verið mjög erfitt slökkvistarf,“ sagði Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliði Skagafjarðar, í samtali við blaðamann Feykis. „Þetta er mjög gamalt hús, einangrað með torfi og mikil holrúm í veggjum.“ Kona sem var eini íbúi hússins var ekki heima þegar eldsins varð vart. Sem fyrr segir voru starfsmenn Skagafjarðarveitna á staðnum við vinnu vegna nýs inntaks fyrir heitt vatn í húsið. Er talið að glóð hafi kviknað með fyrrgreindum afleiðingum. Svavar Atli segir að þegar komið var á staðinn hafi verið hiti í vegg. „Við byrjuðum á að rjúfa vegginn og þetta reyndist mun meira en virtist í fyrstu. Þarna var kominn eldur í vegg og jafnvel þak og húsið varð fljótlega alenda og er gjörónýtt,“ sagði hann.

Þegar blaðamaður Feykis kom á vettvang á ellefta tímanum í kvöld var allt tiltækt slökkvilið á staðnum ásamt lögreglu og sjúkrabifreið. Þá voru stórvirkar vinnuvélar á staðnum. Svavar sagði mikilvægt að ljúka slökkvistarfinu sem fyrst og rífa niður það sem eftir stæði af húsinu, enda getur eldur kraumað dögum og jafnvel vikum saman við aðstæður sem þessar.

Fleiri fréttir