Íbúum fjölgar um 0,5% á Norðurlandi vestra

Frá Blönduósi en þar hefur íbúum svæðisins fjölgað mest á tímabilinu. Mynd:FE
Frá Blönduósi en þar hefur íbúum svæðisins fjölgað mest á tímabilinu. Mynd:FE

Íbúum Norðurlands vestra hefur fjölgað um 36 einstaklinga eða 0,5% á tímabilinu frá 1. desember 2017 til 1. september sl. samkvæmt tölum frá Þjóðskrá sem birtar voru nýlega. Mesta fjölgunin í landshlutanum varð í Blönduósbæ en þar fjölgaði íbúum um 43 sem nemur 4,8% fjölgun.

Heildaríbúafjöldi á Íslandi var, þann 1. september, 354.152 og hafði fjölgað um 1,7% frá 1. desember 2017. Hlutfallsleg fjölgun var mest í Mýrdalshreppi, um 9,1% en hlutfallsleg fækkun var mest í Reykhólahreppi, um 9,7%. Íbúum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Norðurlandi eystra þar sem fækkaði um 0,4%.

Í tölum Þjóðskrár má sjá að Sveitarfélagið Skagafjörður er fjölmennast sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Þar voru íbúar þann 1. september 3.979 og hafði fjölgað um 34 eða 0,9% á tímabilinu. Í Húnaþingi vestra voru íbúar 1.179 en þar hafði fækkað um ellefu manns eða 0,9%. Í Blönduósbæ voru 935 íbúar þar sem hafði, eins og áður segir, fjölgað um 43 eða 4,8%, á Skagaströnd voru íbúar 456 og fækkaði íbúum þar um 24 eða 5% sem er mesta fækkunin í landshlutanum. Íbúar Húnavatnshrepps voru 380 og hafði fækkað um sjö manns eða 1,8%,  í Akrahreppi voru 198 íbúar og hafði fjölgað um fjóra eða 2,1% og fámennasta sveitarfélagið er Skagabyggð með 89 íbúa en þar hafði fækkað um þrjá sem jafngildir 3,3% fækkun.

Á vef Þjóðskrár kemur fram að hér eftir verði upplýsingar um íbúafjölda eftir sveitafélögum virtar mánaðarlega.  Upplýsingarnar byggjast á skráðri búsetu einstaklinga í þjóðskrá þann 1. hvers mánaðar. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir