Íþróttakeppnir sagan áfram – fyrsta Íslandsmótið í hestaíþróttum :: Kristinn Hugason skrifar

Reynir Aðalsteinsson (1944-2012) á Stjarna frá Svignaskarði á fyrsta Evrópumótinu, árið 1970. Reynir var fremsti knapi Íslendinga á upphafsskeiði hestaíþróttanna á Íslandi og hlaut fyrstur manna gráðu tamningameistara FT árið 1978. Hann markaði djúp spor með lífsstarfi sínu í hestamennsku. Mynd úr safni SÍH, Friðþj.Þorkelss.
Reynir Aðalsteinsson (1944-2012) á Stjarna frá Svignaskarði á fyrsta Evrópumótinu, árið 1970. Reynir var fremsti knapi Íslendinga á upphafsskeiði hestaíþróttanna á Íslandi og hlaut fyrstur manna gráðu tamningameistara FT árið 1978. Hann markaði djúp spor með lífsstarfi sínu í hestamennsku. Mynd úr safni SÍH, Friðþj.Þorkelss.

Í síðustu grein vorum við stödd á landsmótinu 1978 að Skógarhólum í Þingvallasveit, því síðasta sem fram fór á þeim sögufrægu slóðum en á því móti var m.a. í fyrsta sinn að finna hestaíþróttir á dagskrá landsmóts. Á fleiri leiðarstef, varðandi þróun hestaíþróttanna á þeim um margt tíðindamikla áttunda áratug síðustu aldar, hefur verið minnst.

Heimsleikar íslenska hestsins, eða Evrópumótin eins og þessi mót voru þá almennt kölluð, drógu þó sem fyrr að mestu vagn framþróunar á þessu sviði og á ýmsu gekk hvað þátttöku íslenskra knapa varðaði en þeir efldust jafnt og þétt og aðkoma Íslendinga varð meiri hvað þróun keppnisgreina varðaði. Tvímælalaust má segja að gæðingaskeiðið sé t.d. glæsilegt dæmi um íþróttakeppnisgrein þar sem Íslendingar höfðu frumkvæðið í mótun greinarinnar og byggt var á rammþjóðlegri arfleifð í hestamennskunni.

Næsta Evrópumótið er hér var komið sögu fór svo fram í Uddel í Hollandi 1979. Fullyrða má að Íslendingar hafi mætt vel undirbúnir hvað hestakost og annað varðar, m.a. var farið tímanlega utan með hrossin til að treysta undirbúninginn sem þó því miður sannaðist að getur reynst tvíbent en hrossin veiktust því að skæð hrossainflúensa geisaði um vestanverða Evrópu. Ótrúlega fínn árangur náðist þó á mótinu á lánshestum. Sjötta Evrópumótið fór síðan fram í Larvík í Noregi árið 1981 en aldrei áður hafði Evrópumótið verið haldið svo norðarlega, þó svo Larvík sé ekki með norðlæga legu þannig séð; er staðsett við sjóinn á mótum Oslóarfjarðar og Skagerraks rúmum 100 km suðvestur af Osló.

Fallegur staður í beinum ferjusamgöngum við Hirtshals á Norður-Jótlandi. Mótið fór fram á gamalgrónum skeiðvelli en víða í Evrópu, ekki síst í Skandinavíu, eru vel uppbyggð mótsvæði þar sem veðreiðar hafa farið og fara enn fram. Er það mikil gæfa upp á alla aðstöðu þar sem landssambönd FEIF-landanna hafa getað skapað tækifæri til að nýta slík svæði. Var gæðingaskeiðið kynningargrein á mótinu. Það varð svo fullgild grein á næsta móti árið 1983 sem upphaflega stóð til að Frakkar héldu en þeir treystu sér ekki til þess er á hólminn var komið og tóku Þjóðverjar við því og fór það fram í smáþorpinu Roderath í Eifel skammt frá Belgísku landamærunum.

Árangur Íslendinga var góður á þessu móti og viðunandi á því næsta sem fram fór í Vårgårda í Svíþjóð 1985, þar fór mótið fram á æfingasvæði sænska hersins en Vårgårda er í Vestur-Gautlöndum í Svíþjóð, stutt inni í landi eða sem svarar rétt rúmlega 60 km loftlínu norðvestur af Gautaborg. Þannig að í bæði þau skipti sem mótin fóru fram í Skandinavíu var svo sannarlega gætt að samgöngum og fjarlægðum. Á þessu móti bættust tvær þátttökuþjóðir við; Finnland og Kanada og var þar með þátttöku þeirra síðarnefndu stigið skref til þess að þátttaka á mótinu yrði útvíkkuð og nafnið Evrópumót ætti ekki lengur við. (Byggt á samantekt í bókinni Hestar og menn 1987. Árbók hestamanna, bls. 198-205. Höf: Guðmundur Jónsson og Þorgeir Guðlaugsson. Útg.: Skjaldborg 1987).

Íslandsmótið á Selfossi 1978
Fyrsta Íslandsmótið í hestaíþróttum fór fram á Selfossi 1978, dagana 19. til 20. ágúst, að því stóðu hestamannfélagið Sleipnir og Íþróttaráð LH. Í bænum fór og fram einkar glæsileg landbúnaðarsýning á vegum Búnaðarsambands Suðurlands og landsmótið var svo á Skógarhólum í júlí sama ár eins og áður segir. Þannig að mikið var um að vera í Árnesþingi þetta ár og raunar hvað íslenska hestinn varðar, því á öllum þessum atburðum lét hann vitaskuld til sín taka.

Bjarni E. Sigurðsson, skólastjóri og hestamaður, löngum kenndur við Hvol í Ölfusi, skrifaði merkisgrein um þennan atburð sem birtist í 9. tbl. Eiðfaxa 1978, bls. 7 til 9. Það er gaman að skoða þau skrif í ljósi stöðunnar nú rúmum 40 árum síðar. Um töltkeppnina sagði: „Töltkeppnin var ákaflega skemmtileg grein og þar kom fram að þjálfun og úthald bæði hests og knapa er nauðsyn ef þetta á að ná tilgangi sínum.“ Fögrum orðum var jafnframt farið um gæðingaskeiðið en umfjöllun um það birtist í næsta tbl. Eiðfaxa á bls. 5. Í umfjöllun um hvoru tveggja fjórgang og fimmgang vék höfundur að því hve hinn löglegi íþróttakeppnisvöllur þætti lítill og sagði m.a.: „Er fimmgangskeppnin hófst var greinileg spenna í áhorfendum og heyra mátti á þeim, er að skeiðinu kom, að vallarstærð er of lítil.“

Bjarni var annars mjög jákvæður út í hestaíþróttirnar, dásamaði þátt ungu kynslóðarinnar er á mótinu lét til sín taka en keppt var í unglingaflokki í tölti og fjórgangi og sá fram á að hún myndi ná mikið lengra en þeir sem þá voru í farabroddi eða teknir að fullorðnast. Hann tók upp kunna tilvitnun í Churchill sem hljóðar svo: Ef þú vilt ala drenginn þinn vel upp þá gefðu honum góðan hest. En bætti við: „Við breytum þessu í takt við tíðarandann og segjum: Ef þú vilt ala barnið þitt vel upp þá gefðu því góðan hest.“

Á meðal þátttakenda og gesta voru aldnar kempur og forystumenn í íþróttahreyfingunni. Sigurður Ólafsson (1916-1993) söngvarinn frægi og skeiðkóngur var meðal þátttakenda í gæðingaskeiðinu, eftir honum var haft og um hann sagt: „Ég er þakklátur fyrir að fá að taka þátt í þessu og bið íþróttadeildinni allrar blessunar. Þessi aldni unglingur stóð þeim yngri ekkert á sporði og átti auðvelt með að fylgja þeim reglum er farið var eftir og var það talandi dæmi um að ekki þarf aldur að standa í vegi fyrir þátttöku. „Hesta- og félagsmálamaðurinn Bogi Eggertsson (1906-1987), sem áður hefur komið við sögu í greinum þessum, kvað eftirfarandi aðspurður um mótið: „Ljómandi gott, á fullan rétt á sér og meira en það. Þetta er framtíðin.“

Þá var birt stutt viðtal við Hafstein Þorvaldsson (1931-2015) formann UMFÍ, þar sagði hann: „Sjálfsagt að taka hestaíþróttirnar inn í íþróttahreyfinguna. Sum ungmennafélögin hafa nú þegar tekið þetta inn á stefnuskrá sína. Svona aðstaða er jafnsjálfsögð og önnur íþróttamannvirki. Annars þarf umræður um þessi mál og styrkja þessi málefni án þess að skerða þá starfsemi er fyrir er í gangi. Þessi keppni er geysiskemmtileg, þetta er svo fjölþætt og greinilegt að til þarf þjálfun eins og við aðrar íþróttagreinar.“

Á þessum árum var einmitt að eiga sér hröð hreyfing í þá átt sem Hafsteinn boðaði en í síðustu grein var getið um stofnun íþróttadeildar Fáks 1976 og 1977 var Íþróttaráð LH sett á laggirnar. Íþróttadeild Fáks fékk svo inngöngu ÍBR árið 1984 og Íþróttaráð LH fékk svo stöðu sérsambands innan ÍSÍ árið 1987.

Niðurlagsorð
Í næstu grein verður enn haldið áfram þar sem frá er horfið í þessari heillandi sögu.

Kristinn Hugason
forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins.

Áður birst í 5. tbl. Feykis 2021.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir