Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps í Kórar Íslands í kvöld
Kórar Íslands er nýr skemmtiþáttur sem verður á dagskrá Stöðvar 2 í vetur en Friðrik Dór Jónsson, einn ástsælasti söngvari landsins, verður kynnir þáttanna. Dómnefndina skipa tónlistarfólkið Kristjana Stefánsdóttir, Ari Bragi Kárason, og Bryndís Jakobsdóttir. Einn af kórunum sem keppa er hinn ágæti Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps og fáum við að sjá þá í þættinum í kvöld.
Höskuldur B. Erlingsson, formaður kórsins, segir að fyrirspurn hafi borist frá aðilum sem tengjast þáttaröðinni um það hvort kórfélagar gætu ekki hugsað sér að vera með. „Við hugsuðum þetta fram og til baka og töldum nokkur vandkvæði á því þar sem að margir kórfélaga eru bændur og fjárstörf í öllum sínum myndum á fullu á þessum tíma. Svo fengum við ítrekun um þetta og ákváðum að gera liðskönnun og eftir það var ákveðið að henda sér í djúpu laugina,“ segir Höskuldur.
Gert var ráð fyrir að kórfélagar mættu á Suðurnesin í dag og segir Höskuldur að allur dagurinn fari meira og minna í þetta verkefni sem endar svo með því að keppnin verður send út í beinni útsendingu í kvöld.
„Við vonum það besta og skorum á Norðlendinga alla að „splæsa“ á okkur atkvæði ef að þeim líkar við atriðið okkar og koma okkur áfram í næstu umferð,“ sagði kórstjórinn í viðtali í síðasta Feyki. Óhætt er að taka undir með Höskuldi og mæla með allsherjar „atkvæðasplæsi“ í kvöld.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.