Keppnis- og kynnisferð Molduxanna til Írlands
Hið síunga körfuknattleikslið Molduxa á Sauðárkróki ætlar að heimsækja frændur vora á Írlandi heim um komandi helgi og kenna þeim að spila körfubolta. Hefur liðið æft stíft síðustu mánuði og síðustu fréttir herma að liðið hafi aldrei verið í betra formi.
Á heimasíðu körfuboltahetjanna molduxar.is er hægt að sjá hvernig undirbúningur fyrir ferðina hefur verið og eftirfarandi færsla leit dagsins ljós í gær:
„Enn á ný heldur landslið Uxanna í víking. Næsta verkefni er þátttaka í hraðmóti í körfuknattleik sem fer fram í borginni Dublin á Írlandi laugardaginn 21. ágúst. Með í för verða hinir dönsku vinir okkar í liði Skovbakken á Jótlandi. Það er mál manna að Skovbakkar hafi elst hraðar og ver en við. Stríðar æfingar hafa verið að undanförnu til undirbúnings. Nú ber svo við að með liðinu í för verða nokkrar klappstýrur frá Skotlandi. Óljóst er hvort sprikl þeirra muni styrkja liðið eða veikja. Yfirklappstýran heitir Sveinn Brynjar, því ekki eru not af henni í leik fullorðinna karlmanna. Með í för verður m.a. hinn eitursnjalli Dr. M. Pale sem hefur sérhæft sig í tveggja putta skotum í láréttri stellingu. Að auki verður Ingemúnd í byrjunarliðinu, fallegasta þriggja stiga hetjan.
Í dag komu svo í pósti nýsaumaðir keppnisbúningar. Eru þeir fallega bláir á lit. Á búningunum kemur fram þjóðerni okkar, númer og ýmiss annar löglegur og ólöglegur fróðleikur auk myndar af hinum harðskeytta og hortuga Uxa á sparifötunum, sem glottir við óburstaða tönn.
Í ferðinni er þéttriðin dagskrá. M.a. munum við snæða nýrnastöppu og kartöflur á sunnudaginn með Gerry Adams og fleiri drengjum úr bardagasveit IRA þar sem hóparnir munu skeggræða sameiginleg áhugamál sín, svo sem að berja á Bretum. Nefnist ráðstefnan „Brothers in arms“ og eru félögin ekki úrkulna vonar með að finna krá með því nafni.
Molduxar eru harðákveðnir í því að koma heim með góðan orðstír í farteskinu.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.