Ketti bjargað eftir þriggja daga prísund í sjálfheldu

Slökkviliðið á Sauðárkróki var kallað út í hádeginu í dag til að bjarga ketti sem kominn var í sjálfheldu  í stóru tré á Aðalgötunni. Talið líklegt að hann sé búinn að dúsa þar a.m.k. í þrjá daga.

 

Það voru húsráðendur á Aðalgötu 11, gömlu símstöðinni, sem gerðu slökkviliðinu viðvart en fyrir tveimur dögum heyrðu þeir mjálm fyrir utan glugga er snýr að trénu. Þrátt fyrir eftirgrennslan sáu þeir ekki köttinn þar sem tréð er ansi hátt og þétt. Í gær sást til kattarins og var reynt að lokka hann að glugganum og hann skilinn eftir opinn svo kisi kæmist inn en líklega verið of hræddur í slíkt áhættuatriði.

Þegar svo kötturinn ætlaði að fara að eyða þriðja deginum í trénu var gripið inn í með aðstoð slökkviliðsins sem kom með körfubíl sér til aðstoðar. Erfitt reyndist þó að nálgast köttinn með körfunni svo íbúi hússins brá sér í klifurferð í tréð náði kettinum við topp trésins og rétti að körfumanni sem kom honum aftur á fastalandið.

Myndir: Snæbjört

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir