Kirkjugarður fundinn í Keflavík í Hegranesi
Í síðustu viku grófu Rarik-menn skurð austan við gamla bæjarhólinn í Keflavík í Hegranesi og segir á vef Byggðasafns Skagfirðinga að Þórey bóndi í Keflavík hafi séð hleðslusteina í skurðinum sem hún lét vita af. Þegar þeir voru svo kannaðir í morgun komu í ljós gamlar hleðslur undir ljósu öskulagi frá Heklugosi 1104. Sömuleiðis fundust fótabein tveggja einstaklinga sem hafa verið lagðir þar til greftrunar.
Við skurðinn þar sem kirkjugarðurinn fannst við gamla bæinn í Keflavík. F.v. Þórey Jónsdóttir bóndi, Guðmundur St. Sigurðarson og Bryndís Zoëga sérfræðingar hjá Byggðasafni Skagfirðinga, Þór Hjaltalín minjavörður Norðurlands vestra og Guðný Zoëga deildarstjóri Fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga.
„Eina heimild um mögulega kirkju og kirkjugarð í Keflavík er ákvæði í Sjávarborgarmáldaga frá 1399 um að Sjávarborgarprestur eigi að þjóna bænhúsi í Keflavík. Sumarið 2008 var leitað merkja um bænhúsið í Keflavík í fornleifakönnun og fundust leifar 10.-11. aldar byggðar en enginn kirkjugarður. Hér er því afar mikilvægur fundur fyrir Skagfirsku kirkjurannsóknina sem svo er kölluð og hefur staðið yfir frá 2007. En í þeirri rannsókn er lögð áhersla á að staðsetja og staðfesta elstu kirkjugarða,“ segir á glaumbaer.is/is.
