Kirkjukambur úr bronsi finnst í rústum Þingeyraklausturs

Bronskamburinn sem fannst á Þingeyrum. Mynd: Steinunn Kristjánsdóttir, tekin af vef Ríkisútvarpsins.
Bronskamburinn sem fannst á Þingeyrum. Mynd: Steinunn Kristjánsdóttir, tekin af vef Ríkisútvarpsins.

Nú stendur yfir uppgröftur í rústum Þingeyraklausturs en þar hafa fræðilegar rannsóknir staðið yfir frá árinu 2016 og ganga undir heitinu Þingeyraverkefnið. Uppgröfturinn í rústum klaustursins hófst í byrjun júní og mun standa út mánuðinn. Þar hefur tíu manna hópur verið að störfum undanfarið og unnið að því að grafa sig í gegnum jarðlög frá 17. og 18. öld. 

Ríkisútvarpið greindi frá því í fréttum sínum í gær að á dögunum hafi fundist þar bronskambur sem notaður var til að krúnuraka munka og presta á miðöldum og segir Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur sem stýrir verkefninu, að þessi fundur bendi til þess að þau séu komin niður á sjálfar klausturrústirnar. Vonast hún eftir að í framhaldinu finnist jarðneskar leifar ábótans eða munka klaustursins sem flestallir dóu úr svartadauða í byrjun fimmtándu aldar.

Að sögn Steinunnar er gripurinn, sem fannst á föstudag, kirkjukambur, kaþólskur gripur frá miðöldum og hafa aðeins þrír aðrir kirkjukambar fundist hér á landi. „Þetta er kambur steypur í brons,“ segir Steinunn í samtali við Ríkisútvarpið. „Og hann er skreyttur með dýrahöfðum, mjög þungur gripur og fallegur og merkilegur líka. Þetta er fjórði kirkjukamburinn sem er varðveittur á Íslandi, semsagt úr bronsi, og aðeins einn annar sem hefur fundist í fornleifarannsóknum. Samkvæmt tilskipun frá páfa þá áttu allir prestar og munkar að krúnuraka sig með þessum hætti. Þetta var mikil athöfn og þessir kambar voru semsagt notaðir við þannig rakstur.“

Á Þingeyrum var rekið klaustur í meira en fjórar aldir. Einn helsti tilgangur rannsóknanna er að varpa ljósi á upptök og afleiðingar svartadauða hér á landi en munkar og ábóti klaustursins dóu úr svartadauða og er markmiðið að grafa upp bein þeirra og rannsaka með DNA tækni. Að sögn Steinunnar gengur uppgröfturinn vel og vonast hún til að finna mannabein sem hægt verði að rannsaka. „Ég held að við náum því já. Okkur miðar mjög vel og hefur tekist að grafa mjög mikið í hverri viku. Og ég reikna nú með því að við getum opnað einhverjar grafir. Ef að okkur tekst að finna beinagrindur frá klausturtíma, tökum við sýni úr beinunum í Reykjavík. Það þarf að gera það í einangrun og við vinnum úr þessu þar. Við erum meira að safna gögnunum hér,“ segir Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur í samtali við Ríkisútvarpið í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir