Kjalfellsþjófurinn hugsanlega fundinn

Tveir litháskir karlmenn voru hnepptir í gæsluvarðhald á Akureyri vegna rannsóknar á nokkrum innbrotum á Norðurlandi og víðar, m.a. í verslun Kjalfells á Blönduósi. Annar var handtekinn á Keflavíkurflugvelli á sunnudag þegar hann hugðist yfirgefa landið. 

Mennirnir eru m.a. grunaðir um innbrot í Pedró-myndir á Akureyri og í Kjalfell á Blönduósi, að sögn Daníels Guðjónssonar, yfirlögregluþjóns á Akureyri. Í Pedró-myndum var stolið munum fyrir um 4-5 milljónir og í Kjalfelli hurfu tíu fartölvur.

Daníel segir að sá sem handtekinn var á Keflavíkurflugvelli hafi þekkst á myndum sem náðust af honum í öryggismyndavélakerfi verslunar Kjalfells. Hann hafði verið hér á landi í um þrjár vikur. Lögreglu grunar að maðurinn hafi komið hingað gagngert til að stunda innbrot.

Við húsleitir fundust m.a. nokkrar fartölvur en rannsókn lögreglu beinist m.a. að því hvort mennirnir hafi komið þýfi undan til útlanda. Hinn maðurinn var handtekinn í Reykjavík en hann hefur verið búsettur á Íslandi í um fimm ár og á konu og börn hér á landi. Báðir hafa verið fluttir til Akureyrar.

Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra hefur fengið þær upplýsingar frá Litháen að báðir eigi mennirnir sakaferil þar í landi.

/Mbl.is

Fleiri fréttir