Kosningar til Stjórnlagaþings slá ekki beinlínis í gegn

Herra Hundfúll skemmtir sér ágætlega við að hlusta á skýringar á lélegri þátttöku í kosningum til Stjórnlagaþings. Bendir nú hver á annan í leit að sökudólgum.

-Ríkisútvarpið stóð sig ekki nógu vel við að kynna alla rúmlega 500 frambjóðendurna, Gunnar í Krossinum stal senunni, stjórnmálafræðingurinn Gunnar Helgi í Háskólanum hræddi fólk frá þátttöku þegar hann sagði kosningarnar vera flóknar og þá var ritstjóri Moggans með alkunn leiðindi og ósanngirni. Einhverjir voru svo fífldjarfir að segja frambjóðendur hafa klikkað á að kynna sig. Já og Háskóli Íslands hélt ekki málþing um stjórnarskrána. Öss!

-En hafði fólk kannski lítinn áhuga á kosningunum? Hefur fólk almennt þekkingu á stjórnarskránni? Eða raunverulegan áhuga? Getur fólk á skömmum tíma gert upp á milli rúmlega 500 frambjóðenda og stefnu þeirra varðandi stjórnarskrá Íslands? Fannst fólki kosningarnar kannski vera tóm vitleysa, peningaeyðsla og húmbúkk á tímum niðurskurðar og sparnaðar?

-Ekki bætti úr skák að frambjóðendum var uppálagt að nota helst ekki meira en 2 milljónir til að kynna sig. Það var sagt gert til að  jafnræðis væri gætt (sem er undarlegt þegar sumir höfðu þjóðþekktari andlit og skoðanir en aðrir og hafa kannski notið þess). En kannski voru bara frambjóðendurnir svo óspennandi að meirihluti þjóðarinnar – þjóðar sem er alla jafna dugleg að mæta á kjörstað – stóð annað hvort á sama um kosningarnar eða hreinlega nennti ekki á kjörstað?

-Herra Hundfúll er með athyglisverða tilgátu: Veðrið klikkaði. Það var alltof gott á kjördag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir