„Krafan er skýr, eðlileg og sanngjörn“
Þórarinn Sverrisson formaður Öldunnar stéttarfélags í Skagafirði er í viðtali í prentútgáfu Feykis, sem kom út í dag. Tilefnið er að Starfsgreinasamband Íslands afhenti Samtökum atvinnulífsins fyrr í vikunni kröfugerð sína vegna komandi kjaraviðræðna. Farið er fram á krónutöluhækkanir á laun og að lægsti taxti verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára. Sérstaklega verði horft til gjaldeyrisskapandi atvinnugreina við launahækkanir.
Þórarinn Sverrisson segir að mikill einhugur ríki innan Starfsgreinasambandsins um kröfugerðina.
„Það þýðir ekkert að horfa á einhverjar prósentur þegar talað er um laun, grundvallaratiðið er að fólk geti lifað af dagvinnulaunum og þurfi ekki að taka á sig mikla yfirvinnu eða aukavinnu til að ná endum saman. Millistjórnendur og stjórnendur fyrirtækja hafa hækkað verulega í launum á undanförnum misserum og einnig nokkrar stéttir, svo sem kennarar og læknar. Það gengur einfaldlega ekki að verkafólk verði skilið eftir í launakjörum enda er krafa okkar skýr og ég vil meina að hún sé sanngjörn og eðlileg.“
Viðbrögðin eftir bókinni
Samtök atvinnulífsins lýstu strax yfir vonbrigðum með kröfur Starfsgreinasambandsins og benda á að launabreytingar í nágrannalöndum séu á bilinu 2% til 4% á ári. Svigrúmið til að hækka launin sé þess vegna takmarkað í augnablikinu. Þórarinn segir að afstaða Samtaka atvinnulífsins hafi verið eftir bókinni.
„Viðbrögðin voru vituð fyrirfram, við bjuggumst ekki við öðru en neikvæðum tóni, sem kom strax á daginn. Við bendum hins vegar á að langur vinnudagur og mikið álag dregur úr framleiðni og eykur samfélagslegan kostnað, svo sem í velferðarkerfinu.Þegar samið var við kennara og lækna talaði enginn um að samfélagið færi á hausinn, en þegar við leggjum fram okkar kröfur, ætlar allt um koll að keyra. Þetta er sem sagt sami gamli söngurinn, enn og aftur.“
Hugur í fólki
Þórarinn segir að aðildarfélög Starfsgreinasambandsins komi vel undirbúin til samningaviðræðna.
„Það er hugur í fólki og við teljum okkur ekki setja fram óraunhæfar kröfur. Það gengur einfaldlega ekki upp að auka tekjumuninn enn frekar, eins og gert hefur verið á undanförnum árum,“ segir Þórarinn Sverrisson formaður Öldunnar stéttarfélags í Skagafirði. /KEP