Króksbrautarhlaupið á morgun

Sumarstarfi Skokkhópsins á Sauðárkróki lýkur á morgun, þann 20. september, með hinu árlega Króksbrautarhlaupi. Þá velur fólk sér þá vegalengd sem það ætlar sér að leggja að baki og hleypur á Krókinn á brautinni milli Varmahlíðar og Sauðárkróks. Hægt er að hlaupa, ganga, hjóla eða koma sér áfram á annan hátt til að vera með, segir Árni Stefánsson skipuleggjandi Króksbrautarhlaupsins.

Boðið verður upp á rútuferðir frá Sundlaug Sauðárkróks kl. 9:30 fyrir þá sem lengst fara eða í Varmahlíð en þaðan er um 25 km á Krókinn. Önnur ferð verður kl. 10:30 fyrir þá sem velja sér styttri vegalengd eða lengst í Kjartansstaði en þaðan er um 15 km. Rútugjaldið er þúsund krónur sem rennur beint í góðgerðarsöfnun þar sem Suðurleiðir aka án gjaldtöku. Drykkjarstöðvar verða á hefðbundnum stöðum, Glaumbæ, Melsgili og Bergstöðum.

Árni segir að æskilegt sé fyrir hlaupara að klæðast áberandi fatnaði og ferðast á móti umferðinni. Það á líka við um hjólafólkið þegar það hjólar samsíða hlaupurunum þó svo það stríði gegn reglum en það sé gert til að bílar eigi greiða leið framhjá þátttakendum.

Að þessu sinni verður hlaupið tileinkað Dýrleifu Tómasdóttur, betur þekkt sem Dýlla, en hún glímir við krabbamein og er í meðferð í Svíþjóð þar sem hún gekkst undir beinmergsskipti. Ljóst er að framundan er erfið og kostnaðarsöm barátta fyrir Dýllu og vill skokkhópurinn leggja sitt af mörkum til að létta undir hjá Dýllu. Þeir sem vilja gera slíkt hið sama, en sjá sér ekki fært að mæta, geta einnig lagt inn á söfnunarreikning sem Blakfélagið Kræjurnar stofnaði í nafni Dýllu: 161-15-550405, kt.: 240560-3729.

Fleiri fréttir