Landsbyggð í blóma
Ég er vinur landsbyggðarinnar og málefni hennar eru mér afar hjartfólgin. Reyndar er ég uppalin hér á höfuðborgarsvæðinu en í mörg ár ferðaðist ég um allt land starfs míns vegna og heimsótti sveitabæi, fólk í þéttbýli og þau fyrirtæki og stofnanir sem staðsett voru úti á landi. Ég átti mörg afar dýrmæt samtöl við fólk í þessum ferðum mínum. Samtöl um daglegt líf þess og hagi, drauma þeirra og væntingar, vonbrigði og endurreistar vonir og framtíðarsýnir þeirra sem meðal annars tengdust heimahögum þess.
Það er ekki hægt annað en að dást að þrautseigju og baráttuþreki margra þeirra sem á landsbyggðinni búa og hafa þurft að taka á sig hvern stórskellinn á fætur öðrum. Ekki er annað hægt en að finna til hryggðar þegar maður horfir á reisuleg frystihúsin sem engin starfsemi er í lengur. Maður upplifir óréttlætið þegar gengið er eftir bryggjunum þar sem er varla neitt athafnalíf lengur og sorgar þegar eldra fólkið talar með söknuði um börnin og barnabörnin sem neyddust til að flytja til höfuðborgarsvæðisins. Óhjákvæmilega fer maður að hugsa í framhaldinu um það hvernig hægt sé að stöðva þessa óheillaþróun og snúa henni við. Því landsbyggðin og það fallega mannlíf sem þar þrífst á svo sannarlega sinn tilverurétt.
Norðmönnum hefur tekist einkar vel að halda fremur harðbýlu landi sínu öllu í byggð. Meira að segja nyrstu héruðunum norðan við heimsskautsbaug þar sem myrkrið og kuldinn ríkja yfir vetrarmánuðina. Þeir hafa farið þá leið að veita þeim sem búa í nyrstu héruðum landsins einskonar dreifbýlisstyrk í formi skattaívilnana. Persónulega þá þykir mér ekki fráleitt að kanna hvort fara mætti einhverja slíka leið hér á landi.
Eitt er víst og það er að sífelld þjónustuskerðing er ekki rétta leiðin til að viðhalda búsetu á landsbyggðinni. Nú berast fréttir af því að Pósturinn muni loka útibúum sínum á Flateyri og Bíldudal 1. nóvember næst komandi. Þau stöðugildi sem þar með tapast skipta sköpum fyrir fjölskyldur viðkomandi starfsmanna. Sífelld þjónustuskerðing, hvort heldur er á sviði verslunar, banka og póstþjónustu eða heilsugæslu, er ekki bjóðandi íbúum þessara staða.
En umfram allt verður að tryggja að öflugt og fjölbreytt atvinnulíf á hverjum stað fái að dafna sem best. Óöryggið og atvinnubresturinn sem núverandi kvótakerfi býr til í gegnum framsal kvóta hefur ýtt undir brottflutning af landsbyggðinni. Taka verður mið af byggðasjónarmiðum en ekki aðeins markaðsaðstæðum við breytingar á kvótakerfinu. Mikilvægt er að auðlindarentan verði notuð til að efla starfsemi tengda sjárútvegi og landbúnaði til að fjölga störfum á landsbyggðinni.. Ennfremur skiptir máli að ungu fólki, sem heldur til náms og hefur hug á að snúa heim aftur að námi loknu, standi til boða störf sem hæfa menntun þess og áhugasviði þegar komið er heim aftur. Þar geta stjórnvöld svo sannarlega veitt aðstoð.
SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar vill í auknum mæli færa starfsemi hins opinbera til sveitarfélaga og landshlutasamtaka og koma á þriðja stjórnsýslustiginu með svæðisþingum til að efla valddreifingu og draga úr miðstýringu. Þessum aðilum verði tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar vegna fjölgunar verkefna. Einnig segir í grundvallarstefnuskrá SAMSTÖÐU að tekjur af auðlindum og svæðisbundinni starfsemi skuli renna í meira mæli til samneyslu og uppbyggingar á viðkomandi svæði.
Ég tel það engu þjóðfélagi hollt að breytast í borgríki á meðan dreifðar byggðir landsins standa fyrst og fremst sem minnisvarði um það líf sem var þar áður.
Þollý Rósmunds
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.