Landsnet gerir nú ráð fyrir að Blöndulína 3 fari um Kiðaskarð

Hér sést hvar Landsnet gerir ráð fyrir lýrri leið Blöndulínu 3, svokallaða Kiðaskarðsleið. Kort af landsnet.is.
Hér sést hvar Landsnet gerir ráð fyrir lýrri leið Blöndulínu 3, svokallaða Kiðaskarðsleið. Kort af landsnet.is.

Gert er ráð fyrir breyttri legu Blöndulínu 3 sem þvera á framhérað Skagafjarðar í umhverfismatsskýrslu sem Landsnet vinnur nú að . Fallið er frá því að fara með línuna yfir Vatnsskarð, eins og fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir, en þess í stað farin svokölluð Kiðaskarðsleið.

Á heimasíðu Landsnets má sjá að aðalvalkostur Blöndulínu 3 felur í sér 220 kV loftlínuvalkosti A1, B1b og C2, samtals 102,6 km leið auk 15,2 km 132 kV jarðstrengs í Skagafirði. Línuleiðin mun liggja frá Blöndustöð í Húnavatnshreppi um Kiðaskarð og niður í Mælifellsdal í Skagafirði. Þaðan austur yfir Eggjar og Héraðsvötn rétt sunnan við ármót Norðurár og inn í mynni Norðurárdals sunnan Norðurár. Þaðan liggur leiðin að mestu samhliða núverandi Rangárvallalínu 1 sem tekin verður niður, um Norðurárdal, Öxnadalsheiði, Öxnadal, Moldhaugaháls, Kræklingahlíð og í tengivirki að Rangárvöllum á Akureyri.

Mynd tekin af Mælifellsvegi, u.þ.b. 4 km suður frá bænum
Mælifellsá. Horft er til vesturs. Fjallið Selhnjúkur fyrir miðri
mynd. Myndin gefur til kynna mögulega ásýnd en ekki er
um endanlega verkhönnun að ræða. Mynd: Landsnet.is.

Ljúka á vinnu við gerð umhverfismatsskýrslu Landsnets sem svo verður send til Skipulagsstofnunar til yfirferðar áður en hægt verður að hefja opinbera kynningu á umhverfismatinu en í skýrslunni greinir Landsnet m.a. frá aðalvalkosti framkvæmdarinnar sem að framan greinir. Í frétt Landsnets segir að þrátt fyrir að á þessu stigi sé umhverfismatsskýrslan ekki fullfrágengin til kynningar, telji Landsnet eðlilegt að upplýsa sveitarfélög, landeigendur og aðra hver sé fyrirhugaður aðalvalkostur.

„Þegar 6 vikna opinbert kynningarferli umhverfismatsskýrslunnar hefst, mun birtast ítarlegur samanburður valkosta og rökstuðningur fyrir aðalvalkosti. Þá gefst tækifæri til að senda umsagnir til Skipulagsstofnunar.

Lögbundnir ferlar umhverfismats gera ekki ráð fyrir sérstakri kynningu aðalvalkostar á þessu stigi. Hins vegar hefur Landsnet væntingar um að hún veiti aukið svigrúm til undirbúnings formlegra umsagna síðar í ferlinu,“ segir á Landsnet.is.

Á vefsjá á vef Landsnets er hægt að nálgast upplýsingar um aðalvalkost ásamt líkanmyndum, sem gefa hugmynd um ásýnd línunnar frá ýmsum nærliggjandi stöðum. Myndirnar sýna breytta ásýnd vegna aðalvalkostar, en einnig eru myndir sem gefa til kynna ásýndarbreytingar annarra valkosta sem voru metnir. Sjá HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir