Laufskálaréttarhelgi framundan
Nú fer að líða að Laufskálaréttarhelgi með öllum þeim uppákomum sem henni fylgja og hefst skipulögð dagskrá föstudaginn 24. september í og við reiðhöllina Svaðastaðir þar sem stórsýning og skagfirsk gleði verða í hávegum höfð.
Á laugardeginum verður réttarstemning allan daginn, fyrst í Kolbeinsdal þangað sem stóðið er sótt og rekið til réttar í Hjaltadalinn en réttarstörf munun hefjast kl. 13:00. Stóðréttardansleikur verður svo um kvöldið í reiðhöllinni þar sem hljómsveitin Von ásamt Siggu Beinteins, Magna og Eiríki Hauks munu halda uppi fjöri. Ákveðið hefur verið að hafa 16 ára aldurstakmark á ballið en að sögn Eyþórs Jónassonar hallarstjóra verður gæslan mjög öflug.
Tuttugu og fimm dyraverðir verða á svæðinu ásamt fjórum frá fíkniefnadeild lögreglunnar en þeim til aðstoðar verða tveir fíkniefnahundar. Unglingar sem ekki hafa náð aldri til að meðhöndla áfengi verða stöðvaðir verði þeir uppvísir að slíku í húsinu og foreldrar látnir sækja þá ef illa fer. Annars er öllum bent á að hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta ef menn á annað borð ætla sér að neyta þess.
Forsala aðgöngumiða á viðburði í reiðhöllinni bæði kvöldin er á N1 á Sauðárkróki
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.