Legsteinn Sigurðanna tveggja - Pistill Byggðasafns Skagfirðinga

Gefendur legsteinsins eru Sigurður Gunnar Gissurarson og móðir hans, Bryndís Sigurðardóttir.
Gefendur legsteinsins eru Sigurður Gunnar Gissurarson og móðir hans, Bryndís Sigurðardóttir.

Ýmsir sérkennilegir og sérstakir gripir hafa rekið á fjörur Byggðasafnsins í gegnum tíðina. Á dögunum fengum við í hendurnar fulltrúa hluta sem eru heldur fátíðir á söfnum landsins, en gripurinn sem um ræðir er legsteinn. Þegar hlutir eru gefnir til safnsins þarf að meta virði þeirra í sögulegum eða fagurfræðilegum skilningi og ákveða svo hvort og hvernig skuli varðveita þá. Þá þarf oft að leggjast í nokkra rannsóknarvinnu til að kynnast sögu þeirra og eigendum og legsteinninn var þar engin undantekning.

Í steininn er grafið: „Járnsmiður Sigurður Sigurðarson fæddur: 14 desember 1820, dáinn: 26 maí 1894; Sigurður Þorsteinsson fæddur: 2 júlí 1886, dáinn: 20 október 1889“. Að sögn gefanda var steinninn lengi undir stiga við Suðurgötu 4 á Sauðárkróki og virtist hafa fylgt húsinu í dágóðan tíma, því enginn vissi hvaðan hann var kominn og af hverju hann leyndist þar. Enginn með þessum nöfnum fannst með snöggri leit og því var leitað aðstoðar hjá starfsfólki Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Þaðan fengust þær upplýsingar að í legstaðaskrá Sauðárkrókskirkjugarðs liggja saman Sigurður Sigurðsson (9.12.1820-26.5.1894) og Sigurður Þorsteinsson.

Misræmi er á milli legsteins og skrár þegar kemur að Sigurði járnsmiði, annars vegar við ritun föðurnafnsins og hins vegar í fæðingardegi, sem skýrir af hverju hann fannst ekki við fyrstu leit. Um þann síðarnefnda fundust engar upplýsingar aðrar en þær að hann hafi verið fluttur úr Sjávarborgarkirkjugarði. Skýringin er líklega sú að nokkrar prestþjónustubækur tengdar Sauðárkróki og nágrenni frá árunum 1880-1890 brunnu og því takmarkaðar upplýsingar að fá um þá sem fæddust eða létust á því tímabili.[1]

Samkvæmt Skagfirskum æviskrám var Sigurður Sigurðsson, járnsmiður, fæddur árið 1820 í Grundarkoti í Blönduhlíð, síðar bóndi m.a. í Hjaltastaðakoti. Hann þótti eindæma hæfileikaríkur í sinni iðn og annálaður á Norðurlandi. Hann eignaðist tvo syni með fyrri konu sinni, Lilju Jónsdóttur.[2] Synirnir voru Haraldur steinsmiður (1856 -1918) [3] og Þorsteinn trésmíðameistari (snikkari) á Sauðárkróki (1859- d. í Vesturheimi).[4] Þorsteinn var kallaður „höfuðsmiður héraðsins“ og byggði m.a. Sauðárkrókskirkju og Blönduóskirkju.[5] Sigurður fluttist til Sauðárkróks árið 1885 með seinni konu sinni, Sigurbjörgu Gísladóttur og bjó þar til æviloka.

Þó upplýsingar um drenginn Sigurð Þorsteinsson séu fáar, lætur að líkum að hann hafi verið sonur Þorsteins snikkara og verið jarðsettur við hlið afa síns. Um hann er ekki getið í Skagfirskum æviskrám eða öðrum ættartölum og því vitum við fátt um drenginn utan þess sem stendur á steininum og örlítilli upplýsingaglefsu frá Sauðárkrókskirkjugarði. Garðurinn var vígður árið 1893 og í bókinni Sauðárkrókskirkja og formæður hennar segir frá tveimur manneskjum sem bornar voru til moldar þar: „Næstu tvö lík greftruð þar, voru flutt úr Sjávarborgarkirkjugarði, annað barn Þorsteins snikkara Sigurðssonar, hitt Ludvigs Popps.“[6]

Sigurður Sigurðsson bjó á Sigurðarbæ, um það bil þar sem nú er Suðurgata 8-10. Í næsta húsi sunnan við, þar sem nú er Suðurgata 8, bjó sonur hans, Þorsteinn trésmiður.[7] Í næsta húsi norðan við Sigurð var Haraldarhús, sem varð Suðurgata 4 en þar bjó Haraldur Sigurðsson steinsmiður. [8] Síðar var búsettur í Haraldarhúsi Magnús nokkur Hannesson, sem seldi loks hjónunum Sigurði Björnssyni og Margréti Ingibjörgu Pálu Sveinsdóttur. Það eru afkomendur þeirra hjóna sem gáfu steininn til safnsins.

Þar sem steinninn fannst við Suðurgötu 4 eru líkindi á því að Haraldur steinsmiður hafi sjálfur útbúið legsteininn fyrir föður sinn og bróðurson. Óvíst er hvers vegna steininn rataði aldrei á leiði þeirra, en hugsanlega var það vegna þess að villa er í upplýsingum á steininum og e.t.v. hefur hann ekki viljað setja steininn upp þess vegna, eða að hann hefur ekki náð því áður en hann lést.

/ Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Áður birst í 4. tbl.  Feykis 2021

[1] Sérstakar þakkir til Sólborgar Unu Pálsdóttur, héraðsskjalavarðar hjá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga og Ingimars Jóhannssonar, sóknarnefndarformanns fyrir aðstoðina við upplýsingaöflun.
[2] Skagfirskar æviskrár 1850-1890 II, bls. 265-267.
[3] Skagfirskar æviskrár 1890-1910 III, bls .123-124.
[4] Skagfirskar æviskrár 1890-1910 II, bls. 348-350.
[5] Skagfirskar æviskrár 1890-1910 II bls. 348; Kristmundur Bjarnason, Sauðárkrókskirkja og formæður hennar, bls. 92.
[6] Kristmundur Bjarnason. Sauðárkrókskirkja og formæður hennar, 1992. Bls. 93
[7] Saga Sauðárkróks I, bls .185-186.
[8] Saga Sauðárkróks I, bls. 195.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir