Leikskólafólk í Skagafirði samþykkti verkfall auk starfsfólks sundlauga

Yfirgnæfandi meirihluti starfsfólks á leikskólum í fimm sveitarfélögum á félagssvæði Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþágu, samþykkti boðun verkfalls í atkvæðagreiðslu sem lauk á hádegi í gær. Vinnustöðvanir munu vera frá 30. maí til klukkan 23:59 fimmtudaginn 1. júní.

Á heimasíðu Kjalar kemur fram að í Skagafirði hafi hlutfall verkfallssinna verið 100%, líkt og í Grundarfirði og Snæfellsbæ. Í Borgarbyggð samþykktu 85,71% verkfallsboðun og í Stykkishólmi 86,67%. Þátttaka var mjög góð í öllum sveitarfélögum eða frá 85% og upp í 100%.

„Af þessum niðurstöðum að dæma er ljóst að fólkinu okkar er misboðið og það muni ekki sætta sig við þá mismunun sem að Samband íslenskra sveitarfélaga býður upp á,“ er haft eftir Jakobínu Björnsdóttur, formanni stjórnar Kjalar um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar á heimasíðu félagsins.

Starfsfólk sundlauga samþykkti verkfall um Hvítasunnuhelgina

Fyrir helgi samþykkti starfsfólk sundlauga og íþróttamannvirkja átta sveitarfélaga á Vestur, Norður- og Austurlandi að leggja niður störf um Hvítasunnuhelgina.

Það þýðir að hátt í 1600 félagsmenn BSRB hafa nú þegar samþykkt að leggja niður störf í 18 sveitarfélögum á næstu vikum - en frekari aðgerðir eru í undirbúningi hjá félögunum náist ekki að semja.

Starfsfólk sundstaða og íþróttamiðstöðva eftirfarandi sveitarfélaga verða í verkfalli 27., 28. og 29. maí og bætast þar með við áformuð verkföll starfsfólks leik- og grunnskóla, mötuneyta, frístundamiðstöðva og hafna í Kópavogi, Garðabæ, Hafnafirði, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Reykjanesbæ, Árborg, Hveragerði, Ölfus og Vestmannaeyjum:

Skagafjörður
Akureyrarbær
Borgarbyggð
Dalvíkurbyggð
Fjallabyggð
Fjarðabyggð
Snæfellsbær
Vesturbyggð

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir