Leti og ómennska
Áfram höldum við að fylgjast með ferðasögu Þuríðar Hörpu í Delhí; -Ákvað að setja inn nokkur orð en hef í raun lítið að segja. Dagurinn búin að vera með eindæmum viðburðasnauður. Rumskaði í morgun við að mamma var komin á fætur fyrir allar aldir, held bara fyrir kl. átta að hella upp á, uppgötvaði svo nokkru síðar að það var Þórir bróðir sem hafði valdið þessu rúmruski svona alltof snemma.
Hann er morgunhani og því tilvalið að hann taki að sér þjónustuna við okkur mæðgur á morgnana, hann er því pantaður hingað kl. hálfníu framvegis í morgunstörf. Ég fór í æfingar og gekk bara ljómandi vel á grindinni í morgun, strax eftir æfinguna fór ég í sprautuna, hún var nú ekki alveg sú sem ég hélt að ég ætti að fá þar sem aðeins var sprautað sitthvoru megin við hrygginn rétt við skaðann, svo mátti ég bara fara inn á herbergi og hvíla mig í klukkustund og fara svo í æfingar. Seinniparts æfingin gekk líka vel, eftir að hafa þvælst á nýuppblásnum boltanum og var hann svo stór að ég átti í basli með að hanga á honum. Eftir boltaæfinguna var komin tími á dýnuæfingu og eins og í gær skreið ég fram og til baka á dýnunni og endaði svo með að fikra mig upp rimlana. Koddum var komið fyrir ofan á kálfunum á mér og svo átti ég að setjast og hífa mig upp aftur og reyna að nota hendurnar sem minnst, þetta er náttúrlega ógjörningur öðruvísi en að nota hendurnar, ég reyni samt eins og ég get að kom skilaboðum niður á mjaðma- og rasssvæðið um að vinna vinnuna sína, og virka nú vöðvar ef einhverjir eru virkir. Shivanni sagði þetta mjög erfiða æfingu en taldi mig gera þetta ágætlega, hún er að hugsa um að prófa æfingu þar sem ég sit með hnéin alveg upp að brjósti og fætur í gólfi og lyfti svo upp rassinum, jebb, alveg ótrúlegt bara að ætlast til að ég geti það svona á mig komin þegar fullfrískt fólk á í mesta basli með að gera þetta og sumir geta þetta allsekki. En við skulum bíða og sjá, ég ætla allavega að reyna eins og ég get, veit það væri hrikalega gaman að geta þetta, ég gæti þá kannski komið mér sjálf upp í stólinn ef ég dytti úr honum, sem væri náttúrlega bara snilld. Seinni partinum og fram eftir kveldi eyddi ég svo í lestur Berlínaraspanna, ég sat meira að segja úti dágóða stund í skugganum og las þar. Auðvitað kláraði ég bókina og hugsa mér gott til glóðarinnar að geta byrjað á framhaldinu strax. Á morgun ætlum við að flytja í gamla herbergið þar sem Ravi og kó voru. Þó þetta herbergi sé bara fínt þá er það betra, held ég.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.