Lífræn framleiðsla á kryddum hjá Vilko
Í haust fékk Vilko ehf. á Blönduósi vottun til framleiðslu á lífrænum kryddum. Vottun sem þessi er ekki aðeins vottun til að framleiða lífrænt vottaðar matvörur heldur einnig viðurkenning á að framleiðsluferli fyrirtækisins sé í góðu lagi.
Framkvæmdin að baki slíkri vottun felur í sér að allt húsnæðið er tekið út, allar skráningar í gæðakerfi, framleiðsluskýrslur, vottanir birgja, ferli sýnatöku og fleira. Hér er því ekki einungis um vottunina að ræða, heldur endurskoðun á öllum framleiðsluferlum fyrirtækisins. Þannig er vottun er ekki aðeins vottun á lífrænu vörunum hjá fyrirtækinu, heldur alla framleiðsluna þar sem hún fengist ekki ef aðrir hlutar vinnslunnar væru ekki í lagi. „Við viljum því þakka sérstaklega okkar starfsfólki þolinmæðina í þessu ferli og einnig þakka Uppbyggingasjóði SSNV fyrir framlag sitt til vöruþróunar sem leiddi til vottunar,“ segir á heimasíðu Vilko.
Á árinu flutti Vilko alla starfsemi sína í gömlu mjólkurstöðina á Húnabraut 33 á Blönduósi, sem áður hýsti mjólkurstöðina og við það stækkaði húsnæði fyrirtækisins um 800 m2.