Ljúfar minningar - Áskorandi Hulda Jónasdóttir, brottfluttur Króksari

,,Ég er Króksari” svara ég iðulega fólki sem spyr mig hvaðan ég sé, þrátt fyrir að hafa varið miklu lengri tíma í allt öðrum landshluta. Eitt sinn Króksari, ávallt Króksari.

Það var ljúft að alast upp á Króknum og alltaf nóg að gera á öllum vígstöðum og margar ljúfar minningar sem streyma fram. Ég man til dæmis eitt árið mitt við Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki þegar hin fræga Sæluvika var að ganga í garð. Ég hafði ráðið mig í tímabundna vinnu með skólanum hjá fiskiðjunni á Króknum (Kaupfélaginu) því það vantaði sárlega fólk í vinnu á þessum tíma og þangað mætti ég klukkan 5 á morgnana og vann til klukkan 7. Skellti mér síðan heim í sturtu og mætti í skólann, síðan aftur í vinnu milli 16 og 20 og svo aftur í sturtu og svo beint á Sæluvikuball, og svona gekk þetta alla Sæluvikuna því á þessum árum voru böll öll kvöld í Sæluvikunni og ekki mátti ég missa af neinu, ekki einu sinni gömlu dönsunum sem voru iðulega á fimmtudagskvöldunum ef ég man rétt.

Ég man líka eftir jólastemmingunni á Króknum þegar ég var að alast upp, þegar Aðalgatan var hlaðin skemmtilegum verslunum, og hægt var að labba milli búða og versla jólagjafir. Auðbjörg með úrval af fallegri gjafavöru, Fríða Ásgríms með úrval af allskonar, Tommi í vefnaðarvörudeild KS með allskyns skemmtilegan fatnað og skó, Itti með allar nýjustu vínylplöturnar og auðvita Fríða og Eddi Gull með allan nýjasta tískufatnaðinn.

Ég var svo heppin að afi minn, hann Þorvaldur Þorvaldsson (Búbbi), rak verslunina Vísi á Króknum á þessum árum og þar fékk ég, skólastelpan, iðulega vinnu fyrir jólin.

Ég man sérstaklega stemminguna á Þorláksmessukvöldi þegar opið var til miðnættis, þá komu ansi margir við í búðinni hjá afa. Sumir til að versla í jólamatinn, aðrir til að kaupa jólagjafir og sumir bara til að fá sér smá hressingu, kannski eina Spur Cola og eitt Smakk súkkulaði áður en þeir heldu áfram að rölta á milli verslana í Aðalgötunni.

Og flest allir sem bjuggu á Króknum á þessum árum muna eftir jólasveininum sem hann afi setti alltaf út í glugga á verslun sinni á aðventunni, hann taldi niður dagana til jóla og var ómissandi partur af aðventunni hjá Króksurum á þessum árum.

Ég man sérstaklega eftir tónskáldinu Eyþóri Stefánssyni sem alltaf kom í búðina hjá afa á Þorláksmessukvöld og keypti nokkra konfektkassa frá Nóa Síríus og gaf sér langan tíma fyrst til þess að velja réttu myndirnar á kassana og svo þurfti ég að pakka þessu inn fyrir hann eftir settum reglum og skrifa svo á jólakort fyrir hann sem fylgja áttu pökkunum. Ég minnist Eyþórs með miklum hlýhug, hann var elskulegur maður.

Svo komu þeir reglulega við aðrir kaupmenn í götunni til að athuga hvernig salan gengi og það var ekki laust við það að það væri komin örlítil kaupstaðarlykt af þeim eftir þessar heimsóknir. Eftir miðnætti var svo farið inn til hennar Huldu ömmu og þar beið hún með nýsteiktar kleinur og ískalda mjólk.

Það er ennþá ljúft að heimsækja Krókinn þó liðin séu mörg ár frá þessum minningum mínum og flestir þeirra sem ég nefndi hér á nafn löngu flognir upp til skýjanna. Ennþá hefur Krókurinn upp á margt skemmtilegt að bjóða og er fullur af dásamlegu fólki.

Ljúfast er þó kannski að rölta upp kirkjuklaufina, koma við í einum fallegasta kirkjugarði sem til er og kveikja örlítið ljós hjá ættingjum og vinum sem ekki lengur eru hér meðal okkar.
Staldra svo við og horfa yfir fallega bæinn og minnast þess hversu heppin ég var að fá að alast upp á þessum fallega stað.

Ég skora á Guðnýju Kára vinkonu mína að skrifa pistil í Feyki.

Áður birst í 44. tbl. Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir