Lúpínu eytt í Spákonufellshöfða
Í næstu viku mun fimm manna hópur sjálfboðaliða frá Umhverfisstofnun vinna að eyðingu lúpínu á Spákonufellshöfða við Skagaströnd. Markmið verkefnisins er að hefta útbreiðslu lúpínunnar í friðlandinu í Höfðanum og endurheimta með því þau gróðursvæði sem lúpínan hefur lagt undir sig, að því er segir á vef Skagastrandar. Þar sem verkefnið er umfangsmikið og ekki auðvelt viðureignar auglýsir sveitarfélagið eftir sjálfboðaliðum til að taka þátt í verkefninu. Verkið er unnið í nánu samstarfi við áhaldahús og vinnuskóla.
Hópurinn mun hittast við áhaldahúsið á mánudagsmorgun, 19. júní, kl. 9:00 og eru þeir sem áhuga hafa á að leggja verkefninu lið boðnir velkomnir þangað. Ekki er nauðsynlegt að vera með frá upphafi, heldur er hægt að ganga til liðs við hópinn þegar hverjum og einum hentar.