Malbikun tefst vegna hita og jarðsigs

Athygli hefur vakið að ekki skuli vera búið að malbika veginn við nýja leikskólann á Sauðárkróki. Mikill hiti í sumar auk jarðsigs tefur framkvæmdir.

Borgargerði heitir nýji vegurinn sem verið er að byggja og nær frá Strandvegi, í gegn um iðnaðarhverfið, framhjá nýja leikskólanum og liggur fyrir sunnan Túnahverfið og tengist Sæmundarhlíð við Mosahlíð í Hlíðarhverfi.

Að sögn Sveins Árnasonar hjá Víðimelsbræðrum sem byggja veginn, átti að malbika hann áður en kennsla hæfist í leikskólanum en því var frestað þar sem vart var við sig í veginum. Einnig spilaði inn í að nokkur umferð þungavinnuvéla hafi verið á veginum vegna vinnu í leikskólanum og var talið að nýtt malbik þyldi ekki þá umferð í þeirri sól og hita sem verið hefur í sumar.

Nú er verið að vinna í veginum þar sem hann tengist Sæmundarhlíðinni og segir Sveinn að hægt verði að aka á malbiki frá fjalli að fjöru um næstu mánaðarmót.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir