Manstu gamla daga í kvöld
Nú hefur Sæluvikan runnið sitt skeið á enda þetta árið með sinni margbrotnu menningardagskrá. Það er þó ekki svo að þá falli allt í dróma því margt er í gangi utan þeirrar ágætu viku. Félag harmonikkuunnenda í Skagafirði ætla að standa fyrir söngskemmtun í kvöld 11. og fimmtudagskvöldið 13. maí í Bifröst á Sauðárkróki.
-Okkur fannst það tilvalið að halda þetta stuttu eftir Sæluvikuna því ekki er allri sælu lokið, segir Guðmundur Ragnarsson meðlimur hljómsveitar FHS. –Við vildum vera í Bifröst með þessa skemmtun en komust ekki inn fyrr vegna Leikfélagsins. Guðmundur segir að hljómsveitin hafi spilað saman í 4 ár bæði á böllum félagsins og nú í annað skiptið sett upp sérstakt prógram. Í fyrra voru lög Ragga Bjarna leikin en nú eru það dægurlög frá því um1960.
Milli laga ætlar hinn mikli sögumaður Björn Björnsson fyrrv. skólastjóri að láta hugann reika til liðinna daga og segir sögur af fólkinu og tíðarandanum í Skagafirði. –Ég fór í Tímann, Moggann og Dag og fann ýmislegt forvitnilegt frá þessum tíma, segir Björn. -Þetta eru æsispennandi frásagnir af lífinu á Sauðárkróki og Skagafirði. Ég stefni að því að gera þetta skemmtilegt en geri mér enga greinfyrir því hvort þetta verði nokkuð skemmtilegt, segir Björn og hlær en það sem blaðamaður sá og heyrði af því sem sögumaður ætlar að rifja upp þá þarf enginn að óttast það að honum eigi eftir að leiðast á þessari skemmtun.
Skemmtunin hefst kl. 20:30 og vill Guðmundur koma því á framfæri að því miður verður ekki hægt að greiða með greiðslukortum.