Markviss með byssur á sýningu Veiðisafnsins á Stokkseyri

Skotfélagið Markviss á Blönduósi verður þátttakandi í árlegri byssusýningu Veiðisafnsins á Stokkseyri, ásamt versluninni Vesturröst, sem haldin verður um helgina á Stokkseyri. Fjölbreytt úrval skotvopna verður þar til sýnis svo sem haglabyssur, rifflar, skammbyssur, herrifflar ásamt ýmsu tengdu skotveiðum m.a úr einkasöfnum.

Skotfélagið Markviss hélt 30 ára afmælissýningu sl. haust á Blönduósi og mun félagið verða með sérvaldar byssur frá þeirri sýningu á Stokkseyri um helgina. Þar má m.a. nefna, riffla, herriffla, haglabyssur og skammbyssur.

Í tilkynningu frá Veiðisafninu kemur fram að Ingólfur í Vesturröst og félagar sýni úrval skotvopna sem og búnað til skotveiða og skotíþrótta ásamt sjónaukum og aukabúnaði til sýnis og sölu. Kynntir verða rifflar frá Savage, Henry, CZ, Tikka, Sako, haglabyssur frá Bettinsoli, Franchi, Beretta og Benelli, einnig sjónaukar frá Noblex, Bushnell, Simmons og Swarowski ásamt hljóðdeyfum frá Sonic og Ghost. Einnig verða til sýnis skotvopn og munir frá Sverri Scheving Thorsteinssyni, Sigurði Ásgeirssyni, Einari og Braga frá Þverá, Sveini Einarssyni frv.veiðistjóra, Sigmari B. Haukssyni og Drífu-haglabyssur frá Jóni Björnssyni heitnum frá Dalvík ásamt haglabyssum sem Jón Þorsteinsson frá Ólafsfirði smíðaði.
Félagsmenn frá Skotvís verða á staðnum og kynna félagið- og félagsstarfið.

Sýningin verður opin laugard. og sunnud. frá kl. 11–18. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Veiðisafnsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir