Matgæðingar vikunnar tbl 4 - Kjúklingur með pestó og bollukrans

Anna og Andrés ásamt börnunum tveimur. MYND AÐSEND
Anna og Andrés ásamt börnunum tveimur. MYND AÐSEND

Matgæðingar vikunnar eru þau Andrés Magnússon og konan hans Anna Ágústsdóttir, en þau fengu áskorun frá Björgu Árdísi Kristjánsdóttur. Fjölskyldan er þessi venjulega vísitölufjölskylda, hjón með tvö börn. Andrés er 34 ára og vinnur sem tæknimaður hjá Tengli í Reykjavík en Anna leggur stund á mastersnám við Háskólann í Reykjavík þar sem hún lærir hagnýta atferlisgreiningu.

„Við eigum, eins og áður kom fram, tvö börn, dóttir okkar heitir Hrafnkatla, hún er á 7. ári og sonur okkar heitir Birkir Ágúst, hann er á 4. ári. Við búum í Grafarvogi en ég flutti frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þegar ég var 18 ára og hef búið þar síðan. Við erum ekki mikið í tilraunum í eldhúsinu þessa dagana en ég ætla að setja inn mína uppáhaldsuppskrift af klassískum kjúkling með pesto,“ segir Andrés.

AÐALRÉTTUR
Kjúklingur með rauðu pesto og spínati

    4 kjúklingabringur
    1 krukka rautt pesto
    1 krukka salatostur
    1 poki af spínatkál góður slatti af döðlum

Aðferð: Kjúklingur skorinn í bita og settur í stórt eldfast mót eða Le Creuset pott. Krukku af pestó blandað saman við. Spínatkálið fer allt í pottinn. Næst set ég salatostinn í pottinn en það er betra að setja bara ostinn en ekki alla olíuna með, annars verður of mikil olía í pottinum eftir eldun. Í restina set ég góðan
slatta af döðlum og blanda öllu saman. Potturinn er settur í ofn á 180°C með blæstri, í svona 40 til 50 mínútur. Ég tek pottinn út og hræri í þessu einu sinni á eldunartímanum. Þetta er borið fram með hrísgrjónum, fersku salati og hvítlauksbrauði á sparidögum.

EFTIRRÉTTUR
Brauðbollur og bollukrans

„Eftir að maður fór að vera meira heima um helgar með krökkunum þá finnst okkur gaman að baka saman og þá bökum við stundum bollur með kaffinu og læt ég fylgja með brauðbollu-uppskrift sem við gerum reglulega en hana er að finna á síðunni Gott í matinn 
    2 dl ylvolgt vatn
    2 dl nýmjólk
    2½ tsk. þurrger
    2 msk. sykur
    1 tsk. salt
    50 g smjör, brætt
    2 stk. egg, annað til pensunar
    8 dl hveiti (um 8-10 dl)

Aðferð: Hrærið mjólk og vatn saman í skál. Setjið þurrger saman við. Hrærið þar til freyðir. Látið þá sykur, salt, 1 egg og brætt smjör (passa að það sé ekki of heitt) út í. Hrærið. Setjið hveitið saman við smátt og smátt. Hrærið og hnoðið þar til þið hafið óklístrað deig. Þið gætuð þurft minna eða meira hveiti. Hnoðið í stutta stund. Leggið deigið aftur í skálina og breiðið hreint þvottastykki yfir og látið hefast á hlýjum stað í 40 mínútur. Skiptið deiginu í 22 bita og mótið bollur. Látið hefast í 20 mínútur. Penslið með þeyttu eggi og bakið í 15-20 mínútur við 200°C.

Bollukrans
Aðferð: Fyrir sérstök tilefni er gaman að raða bollunum upp í fallegan krans. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír og setjið hringlaga eldfast mót í miðjuna. Gott er að mótið sé um 8-10 cm í þvermál. Raðið átta bollum í kringum mótið. Passið að þær snerti hvorki mótið né hver aðra. Raðið restinni af bollunum fyrir aftan þessar átta og gætið þess að þær komi ekki við hver aðra. Látið hefast í 20 mínútur.

Verði ykkur að góðu!
Andrés skorar á skólabróður sinn, Árna Geir Sigurbjörnsson, að taka við matgæðingaþætti Feykis. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir