Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun styðja við sjálfstæði háskóla

Bjarni Jónsson ásamt Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG og Björgu Baldursdóttur sem skipar 3. sæti VG og óháðra í Skagafirði. Mynd aðsend.
Bjarni Jónsson ásamt Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG og Björgu Baldursdóttur sem skipar 3. sæti VG og óháðra í Skagafirði. Mynd aðsend.

Bjarni Jónsson, varaþingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, sendi fyrirspurn á Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um stöðu og sjálfstæði háskóla á landsbyggðinni. Vildi hann fá að vita hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að eyða óvissu sem ríkt hefur undanfarin ár um stöðu og sjálfstæði Háskólans á Hólum, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Háskólans á Bifröst og styrkja og tryggja starfsemi þeirra þannig að þeir geti vaxið í heimabyggðum sínum. Einnig spurði Bjarni hvort ráðherra ætli sér að beita sér fyrir því að tryggja áframhaldandi sjálfstæði þessara háskólastofnana og uppbyggingu þeirra?

Svar Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, er svohljóðandi:

„Á síðustu árum hafa verið tekin skref til að renna styrkari stoðum undir rekstur Landbúnaðarháskóla Íslands. Langvarandi taprekstur var á skólanum fram til ársins 2014 þegar umskipti urðu í rekstri hans í kjölfar víðtækrar endurskipulagningar. Á síðustu þremur árum hefur skólinn skilað jákvæðri afkomu. Í lokafjárlögum fyrir árið 2015 var neikvæður höfuðstóll háskólans að miklu leyti felldur niður. Þessar aðgerðir hafa orðið til þess að höfuðstóll skólans var jákvæður í árslok 2016 í fyrsta sinn frá stofnun sameinaðs landbúnaðarháskóla. Í árslok 2017 stefnir í að skólinn verði skuldlaus við ríkissjóð, en skuldin varð hæst árið 2013, alls 751 millj. kr.

    Nokkur árangur hefur einnig náðst í rekstri Háskólans á Bifröst. Halli var á rekstri skólans á árunum 2012–2016 að árinu 2013 undanskildu. Á árinu 2016 var skólinn rekinn með 50 millj. kr. halla. Í árslok 2016 var eigið fé skólans neikvætt um 204 millj. kr. Unnið hefur verið að skipulagsbreytingum á síðustu árum og mikið aðhald hefur verið í rekstri. Í kjölfarið varð viðsnúningur á rekstrinum á árinu 2017 og stefnir í að árið verði gert upp með lítils háttar afgangi.

    Áætlun Háskólans á Bifröst fyrir árið 2018 gerir ráð fyrir að 12 millj. kr. afgangur verði af rekstrinum. Fjármagnskostnaður hefur verið hár á undanförnum árum og íþyngt rekstri skólans. Nýafstaðin eignasala skólans mun lækka þennan kostnað umtalsvert á komandi ári og létta talsvert á rekstrinum. Það er von ráðuneytisins að aðhaldsaðgerðir, sala eigna og hækkandi framlög á fjárlögum á undanförnum árum verði til þess að jafnvægi skapist í rekstrinum.

    Viðvarandi hallarekstur hefur verið á Háskólanum á Hólum frá árinu 2008 að undanskildu árinu 2013 er skólinn skilaði 20,5 millj. kr. rekstrarafgangi. Þrátt fyrir aðhald í rekstri og hagræðingaraðgerðir, m.a. með samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands um færslu bókhalds, hefur ekki náðst að stöðva hallareksturinn. Síðustu ár hefur árlegur rekstrarhalli verið um 15,5 millj. kr. að meðaltali. Uppgjöri ársins 2017 er ekki lokið, en horfur eru á að rekstrarhalli ársins verði 5–10 millj. kr.

    Fjárveitingar til skólans hafa farið hækkandi. Auk hærri framlaga til kennslu á grundvelli reiknilíkans háskóla var skólanum m.a. veitt 15 millj. kr. framlag árið 2017 til eflingar stoðþjónustu. Í fjárlögum fyrir árið 2018 fær skólinn, auk hærri framlaga á grundvelli reiknilíkans, sérstakt 20 millj. kr. framlag til uppbyggingar rannsóknainnviða og að auki 11 millj. kr. framlag sem hugsað er til að styrkja rekstur fámennra skóla. Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands njóta einnig síðasttöldu framlaganna, auk Listaháskóla Íslands.

    Í lokafjárlögum ársins 2015 voru 85% af uppsöfnuðum halla skólans, 161,2 millj. kr., felld niður. Horfur eru á að uppsafnaður halli skólans í árslok 2017 verði um 50 millj. kr.

    Það er stefna mennta- og menningarmálaráðuneytisins að vinna áfram með þessum skólum að faglega öflugu starfi til hagsbóta fyrir heimabyggð skólanna og landið allt.“

 

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að tryggja áframhaldandi sjálfstæði þessara háskólastofnana og uppbyggingu þeirra?

„Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun halda áfram að styðja við sjálfstæði háskóla hér á landi. Ýmis skref hafa verið tekin á undanförnum árum til að styðja við faglega uppbyggingu háskóla hér á landi. Gæðaráð íslenskra háskóla hefur verið starfandi frá árinu 2011 og unnið að uppbyggingu gæðastarfs og umbótum í námi og kennslu á háskólastigi þvert á alla háskóla. Úttekt var gerð á Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólanum á Hólum á árinu 2013 og á Bifröst á árinu 2015. Frá stofnun gæðaráðsins hefur starfsemi þess eflst og tekur úttektaráætlun gæðaráðs einnig til umgjarðar rannsókna í háskólum. Þá vinnur ráðuneytið að því með háskólum að endurskoða reglur um fjárveitingar til háskóla til að styðja betur við gæðastarf skólanna. Það er eitt af meginmarkmiðum ráðuneytisins að vinna að uppbyggingu í háskólakerfinu með því að efla gæðastarf til hagsbóta fyrir nemendur og samfélag um allt land.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir