Mikilvægt að styðja bændur til að skapa eigin verðmæti

Mynd: Matis.is
Mynd: Matis.is

Matís stóð fyrir fundi í Miðgarði fyrr í þessum mánuði þar sem fjallað var um áskoranir og möguleika tengda nýsköpun í landbúnaði, sölu og sölu og dreifingu afurða úr heimaslátrun og mikilvægi áhættumats. Fundurinn var vel sóttur enda mikill áhugi meðal bænda  á heimaslátrun og sölu afurða beint frá býli. Meðal framsögumanna á fundinum voru þeir Atli Már Traustason á Syðri-Hofdölum í Skagafirði, og Þröstur Heiðar Erlingsson í Birkihlíð í Skagafirði.

Í máli þeirra Atla og Þrastar kom fram að afkoma margra bænda, sérstaklega sauðfjárbænda, er mjög slæm og að mikilvægt sé að koma upp umhverfi sem veitir bændum fjölbreytta möguleika til að skapa sér lífsviðurværi, án þess að örggi neytenda sé á nokkurn hátt ógnað. Með því að bændum sé gert kleift að sjá sjálfir um öll stig framleiðslunnar á landbúnaðarafurðum gætu þeir skapað sér töluverðan virðisauka en til að slíkt verði hagkvæmt þurfi sá möguleiki að vera fyrir hendi að þeir geti séð sjálfir um slátrun dýranna. Þetta kemur fram á vef Matís  þar sem fjallað er um erindi þeirra. 

Þar kom einnig fram að fái bændur stuðning til að skapa eigin verðmæti geti bændur og byggðir markað sér frekari sérstöðu, stundað nýsköpun og skapað störf fyrir ungt fólk sem skilar sér heim í byggðirnar. Einnig sé mikilvægt að sú verkþekking sem nú er til staðar glatist ekki ásamt því að bændur fái þjálfun í meðferð afurða til að viðhalda gæðum og matvælaöryggi.

„Samkvæmt Atla Má er nauðsynlegt að framtíðar sláturkerfi sé samansett af þrem stærðum sláturleyfishafa, en slíkt kerfi gefi bændum raunverulegt val til að stýra sinni eigin framleiðslu og þjónusta markaðinn betur. Stór sláturhús tækju við mesta magninu og myndi áfram framleiða fyrir heildarmarkaðinn. Minni handverkssláturhús eru ný af nálinni í dag og geta framleitt sérafurðir til að mynda fyrir hótel og veitingastaði. Smásláturhús eða örsláturhús væru þá nýr möguleiki þar sem bændur geta þjónustað sína kúnna beint og veittu bændum meiri sveigjanleika, þjónusta ferðamenn og framleiða smáhandverk, myndi efla nýsköpun og styrkja byggðir og mannlíf til sveita.  Samkvæmt Þresti Heiðari er samstarf milli einstakra bænda en eins milli bænda og stærri afurðastöðva á þessum vettvangi lykilatriði til að viðhalda farsælu slátur- og framleiðslukerfi. Aðlögun eftirlit er einnig mikilvægt, og nauðsynlegt að eftirlit og reglur taki mið af raunverulegri áhættu til að vernda neytandann og tryggja matvælaöryggi,“ segir einnig á vef Matís.

Á síðunni má finna myndbönd með því helsta sem fram kom máli þeirra Atla og Þrastar og auk þess er fundurinn í heild sinni aðgengilegur á YouTube rás Matís.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir