Minningarplatta um Helgu Sigurðardóttur komið fyrir í Húsgilsdragi

Plattinn kominn upp ásamt kassanum góða sem hýsir gestabókina. Kempurnar þrjár, Þórólfur Pétursson, Sigurður Hansen og Ingimar Ingimarsson glaðbeittir eftir gott dagsverk. Myndir PF.
Plattinn kominn upp ásamt kassanum góða sem hýsir gestabókina. Kempurnar þrjár, Þórólfur Pétursson, Sigurður Hansen og Ingimar Ingimarsson glaðbeittir eftir gott dagsverk. Myndir PF.

Föstudaginn 28. ágúst var gerður út leiðangur fámenns hóps áhugamanna um sögu og afdrif  Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu Jóns Arasonar á Hólum, í Húsgilsdrag sem staðsett er suðvestur af Flugumýrardal, við suðurenda Glóðafeykis í Blönduhlíð í Skagafirði. Markmið leiðangursmanna var að setja upp minningarplatta, og málmkassa fyrir gestabók, á stóran stein og gera staðinn að áhugaverðum viðkomustað.

Eins og margir vita urðu örlög Jóns Arasonar, síðasta kaþólska biskupsins á Íslandi fyrir siðaskipti, á þann veg að hann var tekinn af lífi haustið 1550, ásamt tveimur sonum sínum í Skálholti, og eru siðaskiptin á Íslandi gjarnan miðuð við þann atburð. Á Wikipediu segir að siðbreytingin hafi þó byrjað töluvert fyrir líflát Jóns, en aftakan markað þáttaskil vegna þess að biskupinn hafði verið helsti andstæðingur hennar á Íslandi og þegar hann var úr sögunni varð miklu auðveldara að koma breytingum í kring. „Við siðaskiptin fluttust eignir kirkjunnar í hendur Danakonungs sem tók við stöðu æðsta manns innan hennar í stað páfa, ítök Dana á Íslandi jukust og löggjöf varð strangari, ekki síst í siðferðismálum,“ segir þar ennfremur.

Aðdragandi þess atburðar að þeir feðgar voru gerðir höfðinu styttri er margslungin og merkileg en verður ekki rakin nánar hér. Lesendur eru hvattir til að kynna sér þá sögu betur annars staðar, en  þó ber að nefna að þar sem aftaka Jóns fór fram svo seint um haust voru öll skip Danakonungs farin af landi brott og menn Danakonungs því ekki upplýstur um málið fyrr en sumarið eftir er þeir ætluðu að freista þess að handsama Jón en gripu þá í tómt. Hins vegar var Helgu Sigurðardóttur ekki vært heima að Hólum og flýði til fjalla ásamt föruneyti. Í Byggðasögu Skagafjarðar, bls. 159, IV bindi, segir líkur benda til að hún hafi í fyrstu flúið upp á Vindárdal á Tjaldeyrum (Sjá Axlarhaga, bls. 68.) en flutt sig þaðan í Húsgilsdrag þar sem engra mannaferða var von og vel skjólgott. „Espólín segir í árbókum sínum að með Helgu hafi verið sonardóttir hennar, Guðrún Magnúsdóttir og höfðu tjald moslitað og voru með leynd í fjalli nærri Ökrum er Glóðafeykir heitir. Þangað var þeim fært það er þær þurftu og tekið höfðu þær með sér það sem þær gátu fémætt í silfri.“

Tíminn afstæður
Sigurður Hansen, menningarbóndi á Kringlumýri, hafði samband við greinarhöfund og bauð honum með í fyrirhugaðan leiðangur og taldi gott ef svæðismiðillinn væri með og skrásetti þann viðburð sem fram átti að fara í Húsgilsdragi. Það var auðsótt mál og mætti ritstjóri með sína frú og tvo reiðskjóta í Flugumýri, en þaðan var ferðinni heitið, á fyrirfram ákveðnum tíma. Satt best að segja hafði undirritaður eitthvað misskilið umfang leiðangursins því hann bjóst við fleira fjölmiðlafólki og dágóðum hópi áhugamanna verkefnisins. Þegar á Flugumýri var komið var engan mann að sjá og runnu á ritstjóra tvær grímur. Hafði hann haft samband við Sigurð fyrr um morguninn til að fá brottfararstað og -tíma staðfestan. „Já, við förum um hádegið,“ segir Sigurður í símann. „Er það þá tólf eða eitt?“ „Já, eitthvað svoleiðis,“ var svarið. Ég þorði ekki að spyrja nánar.

Þar sem ég er nú ekki þekktur fyrir að mæta of snemma á fundi eða aðra viðburði sagði ég við mína fylgdarkonu, að við skyldum reyna að vera tímanlega svo liðið þyrfti ekki að bíða ef ferðin skyldi hefjast fyrir klukkan eitt. En þarna vorum við mætt rétt fyrir áætlaða brottför og enginn á staðnum svo ég ályktaði að leiðangurinn væri farinn af stað. Ég tók upp símann á ný og hringdi í Sigurð og spurði frétta. „Nú ertu kominn?“ spyr hann. „Við Þórólfur erum enn að útbúa okkur og Ingimar fór eftir klyfberatöskunum í Dýrfinnustaði.“ „Jæja, gott að þið eruð ekki farnir, við Guðný dokum eftir ykkur.“

Eftir hálftíma bið áttaði ég mig á því hve tíminn er afstæður. Þá renndi Ingimar Ingimarsson, á Ytra-Skörðugili, í hlað og teymdi tvö hross úr kerru og inn í hesthús og sagðist svo þurfa að skreppa til að sækja töskurnar. Það var þarna sem ég uppgötvaði svo ekki var um villst að klukka er ekki látin skaða skemmtun í þessari sveit. Skömmu síðar rennur annar bíll í hlað, með stóra hestakerru í eftirdragi, og út stíga þeir Sigurður Hansen og Þórólfur Pétursson, á Hjaltastöðum. Báðir komnir af léttasta skeiði og miðað við göngulagið ályktaði ég að ekki yrði mikið né langt gengið í þessum leiðangri. Ekki fríkkaði göngulagið þegar Ingimar bættist svo í hópinn nokkru síðar með töskurnar góðu. Með honum í för var hundurinn Búi, sem lét undarlega á köflum, og var skýringin sú að hann var nánast blindur. Þarna má segja að haltur hafi leitt blindan.

En þegar hér var komið sögu varð mér það ljóst að leiðangurinn yrði ekki fjölmennari og eftir að allur farangur hafði verið settur í töskurnar góðu, og þær festar á klakka, var riðið af stað nákvæmlega klukkan 14:30.

Nú var stefnan tekin á norðurhlið Glóðafeykis og var leiðin brött því upp fyrir miðjar hlíðar þurfti að komast áður en stefnan væri tekin inn Flugumýrardalinn. Þetta reyndi á klárana og reglulegar áningar þeim kærkomnar. Garparnir þrír, sem ég lýsti heldur glannalega áðan, voru heldur betur góðir og skemmtilegi ferðafélagar. Margar sögur og vísur fengu að fljúga og sóttvarnarlögurinn sem hafður var með í för einungis notaður innbyrðis. „Til hvers að ganga þegar hægt er að fara þetta ríðandi,“ fylgdi einhverri sögunni og það voru orð að sönnu. Þórólfur og Sigurður, sem ávörpuðu hvorn annan „fóstri“, eru um áttrætt en Ingimar fast að sjötugu og þegar í hnakkinn var komið voru þeim félögum allar leiðir færar.

Eftir um tveggja tíma reið, nánast allan tímann upp í mót, náðum við loks áfangastað, í Húsgilsdrag, þar sem felustaður frúarinnar var hér forðum. Hér skal skotið inn í að mikinn fróðleik er að finna um Helgu Sigurðardóttur í grein Þormóðs Sveinssonar í Skagfirðingabók, 6. árgangi 1973 sem einmitt ber heitið Felustaður frúarinnar á Hólum. Einnig er hægt að finna hana á Tímarit.is.

Þegar búið var að finna grjótið, sem ætlað var fyrir minningarplattann, var hafist handa við að taka upp úr töskunum þann búnað sem þurfti til þess verkefnis sem leiðangursmenn höfðu lengi stefnt á. Höggborvél af stærri gerðinni, tveir borar af sitthvorri stærðinni, túpa af steypuviðgerðarefni ásamt kíttissprautu, minningarplatti, kassi undir gestabók og svo bókin sjálf og skriffæri. Veðrið hafði leikið við ferðalanga fram til þessa en um leið og fyrstu drunur borvélarinnar ómuðu um dalinn var eins og himnarnir opnuðust og regnið buldi á mönnum og skepnum. Til að ráða í þá jarteikn var það látið heita að Jón biskup væri að skvetta vígðu vatni á liðið, enda allir bersyndugir. Eftir að búið var að festa platta og járnkassann stytti nægilega upp svo hægt var að rita í gestabókina. Ekki vildi þó betur til en svo að þegar Sigurður draup höfði við skriftir rann heilmikil buna af reiðhjálminum á blaðsíðuna sem hann var að rita á og má þá heita að bókin hafi þá einnig verið vígð með heilögu regnvatni.

Nú var tími til kominn  að halda heim á leið að afloknu góðu dagsverki, með smá krókum. Fyrst var farinn stuttur spotti að suðurenda Húsgilsdragsins en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir Húsgilið, sem skilur Glóðafeyki og Miðfjall að, og niður í Djúpadal. Á heimleiðinni var riðið meðfram Hvammsánni sem rennur á landamerkjum Flugumýrarhvamms og Flugumýrar um heilmikið og fagurt gljúfur er kallast Gálgagil. Fengum við góða tilsögn Ingimars, sem uppalinn er á Flugumýri, og hafði frá mörgu skemmtilegu að segja. Hvenær við komum niður hef ég ekki hugmynd um enda löngu hættur að líta á klukkuna. Tíminn skipti engu máli í þessari ferð. Lýkur þar með ferðasögu þessari.

Öxin og jörðin
Ekki skal sleppt tilurð þess að minningarskjöldur um Helgu Sigurðardóttur var festur á stóran stein í Húsgilsdragi og var því Sigurður Hansen, sem átti hugmyndina að þessu og kom í framkvæmd, spurður út í hana skömmu eftir leiðangurinn sem að framan greinir. Segir Sigurður að hann hafi verið áhugamaður um þetta sögusvið lengi og hafi verið svo heppinn að hafa rætt það við Hjalta Pálsson, vin sinn, og fékk hann til liðs við sig að reyna að koma þessu í framkvæmd. Í fyrrasumar fengum þeir félagar 100 þúsund króna styrk úr Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga í verkefnið en Sigurður viðurkennir að eitthvað standi þó út af ennþá. „Þetta kostar sennilega yfir 200 þúsund allt saman, þannig að við tökum þetta á okkur við Hjalti. Við erum mennirnir á bak við þetta, að koma þessu í kring, með aðstoð annarra góðra manna,“ segir hann en sagan um Helgu hefur lengi verið í minni hans. „Já, maður heyrði þetta frá blautu barnsbeini að Helga hafi verið þarna með sínu fólki uppi  í Húsgilsdraginu og þessi saga er að nokkrum hluta skráð.

Ólafur Gunnarsson skrifaði m.a. bókina um Jón Arason, Öxin og jörðin, þar sem hann segir nokkuð ýtarlega frá þessu. Það er nú svo sem ekki vitað alveg fyrir víst hvað var margt fólk með henni en eitthvað af hennar fjölskyldu var með henni í þessari útlegð. Árið eftir var haldið dómþing við Vallarlaugina, sem var á tímabili þingstaður Skagfirðinga, þar sem hún var ákærð fyrir að hlaupast undan merkjum og vera ekki á staðnum. Ég veit svo sem ekki hver rökin voru fyrir því en þar voru einnig ákærðir bændurnir í Djúpadal og Stóru-Ökrum fyrir að hafa veitt henni aðstoð í þessum fylgsnum uppi í gilinu. Því þeir hafa væntanlega fært henni vistir þarna upp og séð um aðföng fyrir hana.

Þannig var að þau voru öll þrjú ákærð á þessu dómþingi 1552 en voru öll sýknuð fyrir rest. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að það væri engin sekt í boði, þannig að þau voru sýknuð af þessum ákærum sem voru borin á þau. Það er heilmikil saga á bak við þetta í sjálfu sér og Ólafur telur, ef ég man rétt, nokkuð víst að það voru þýsk skip uppi í Kolbeinsárós, eða Kolkuósi, en hann treysti alltaf á Þjóðverja sér til aðstoðar í sinni pólitísku baráttu gegn Dönunum. En hann vissi ekki um það að Danir og Þjóðverjar voru þá búnir að semja frið þannig að þessi þýska aðstoð sem hann átti von á var farin fyrir bí með því móti. En það má leiða líkum að því að  Helga, og þau sem með henni voru, hafi verið þarna í þýskum tjöldum, alla vega gerir Ólafur því skóna. Ég veit náttúrulega ekki hvað hann hefur rannsakað þetta djúpt en hann fór talsvert ofan í heimildir og það er náttúrulega til í dómabókum frásagnir af þessu öllu saman.“

Blý í kok böðulsins
Þó leiðangurinn í Húsgilsdragið hafi verið fámennur stóð upphaflega til að gera meira úr viðburðinum, en eins og með margt annað setti Covid-19 strik í reikninginn.

„Það stóð til, og búið að ákveða, að það yrði málþing í Kakalaskálanum daginn eftir í samvinnu við Árnastofnun. Þema þeirrar málstefnu átti að vera siðaskiptin og fara inn á þessa atburði í sambandi við Helgu líka. Fimm fyrirlesarar ætluðu að vera með okkur en þetta verður bara endurtekið næsta ár, á svipuðum tíma væntanlega,“ segir Sigurður en til eru heilmiklar sögur um þetta tímabil í íslenskri sögu.

Hann rifjar t.d. upp að til sé saga af Þórunni á Grund í Eyjafirði, dóttur þeirra Sigríðar og Jóns, sem sendi, eftir þessa atburði, hefnileiðangur af stað til að drepa Danina fyrir sunnan, þá sem stóðu að því að höggva þá feðga en þeir voru konungs menn. Lét hún m.a. hella fljótandi blýi ofan í böðulinn.

En af hverju konungsmenn létu höggva Jón og syni hans segir Sigurður að konungsmenn hafi ekki þorað, eða treystu sér ekki til, að geyma þá fram til vors. „Þeir töldu að Jón hefði það mikið bakland að hann yrði sóttur í fangelsi ef þeir reyndu að geyma þá, þannig að þess vegna kom einn með þessa ágætu setningu: „Öxin og jörðin geyma þá best“. Þannig að þeir voru höggnir þarna án dóms og laga. Þess vegna er það er þessi dönsku herskip koma inn á Eyjafjörð í júníbyrjun 1551 að þá hafði þeim ekki borist boð um það til Danmerkur að búið væri að aflífa þá. Þeir komu í rauninni til að hertaka Jón. Á þessum tíma var það svo að biskupsstóllinn og biskupinn voru eitt fjárhagslega, þannig að hann átti það sem stóllinn átti. Danirnir voru að leita að verðmætum en það er nú sagt að Helga hafi, áður en hún lagði á flotta, falið mikið að dýrmætum gripum, kaleikum, silfri og borðbúnaði ýmsum, í fjóshaugnum á Hólum. En hvort hún hafi verið með eitthvað með sér þarna er ekki ósennilegt.“

Notar það sem náttúran býður
Fyrir þremur árum síðan fóru þeir Sigurður og Ingimar Ingimarsson í Húsgilsdrag til þess að kanna aðstæður og leita að heppilegum stað til þess að setja upp minnisskjöldinn um Helgu Sigurðardóttur. Markmiðið var að kanna hvort einhver steinn væri þar fyrir hendi sem gæti komið til greina til að festa skjöldinn á. Hann fannst, og segist Sigurður ánægður með hann: „Auðvitað hefði maður ekki stillt honum svona upp en maður verður að nota það sem náttúran býður,“ segir hann og hlær.

Hugmyndin að skildinum og framkvæmdin er Sigurðar en Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson, á Sauðárkróki, hannaði útlit hans og Hjalti Pálsson samdi textann. Á skildinum er konumynd sem tákna á húsfrú Helgu undir útlínum Hólabyrðu. Táknið fyrir neðan, milli textanna, er hugmynd Ægis um merki fyrir siðaskiptin. Hringurinn er sem rísandi sól (hin nýja trú) og í hafi tímans speglast gotneskt form, biskupshúfa á hvolfi.

 Áður birst í 34. tbl. Feykis 2020.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir