Myndasyrpa frá Króksmóti

Það er fótboltaveisla á Sauðárkróki í dag. Endalaus fótbolti leikinn á 11 völlum á flottasta fótboltasvæði landsins og hófst gamanið um klukkan 9 í morgun. Flestir gestir Króksmóts voru mættir á Krókinn í gærkvöldi og fengu við komuna hressilega skúrasyrpu til að rykhreinsa tjaldvagna og þess háttar. Í dag hefur mestan part verið skýjað en veðrið gæti vart verið betra; hlýtt og stillt og sólin er ekki að blinda markmenn.

Leikjum dagsins verður lokið nú um klukkan sjö en kvöldverður fyrir fótboltahetjurnar glaðbeittu er í íþróttahúsinu á Króknum á milli klukkan 6 og 8. Klukkan 8:30 hefst síðan kvöldskemmtun á íþróttavellinum þar sem kantarinn lúnkni, Ingó Veðurguð, skemmtir mannskapnum.

Leikir hefjast svo að nýju kl. 8:30 í fyrramálið og þeir sem hafa misst af frábærri skemmtun á íþróttasvæðinu í dag geta huggað sig við að það verður meira stuð á morgun.

Fleiri fréttir