Nanna systir í Árgarði og Víðihlíð

Nanna systir er á ferðalagi þessa dagana. Aðsend mynd.
Nanna systir er á ferðalagi þessa dagana. Aðsend mynd.

Leikfélag Hólmavíkur hefur staðið í ströngu undanfarið við uppsetningu á gamanleikritinu Nanna systir eftir Einar Kárason og Kjartan Ragnarsson, undir styrkri leikstjórn Skúla Gautasonar. Sýningin hefur þegar verið sýnd í Sævangi á Ströndum við mikinn fögnuð og frábærar móttökur. 

Leikfélag Hólmavíkur er eitt af örfáum áhugaleikfélögum á landinu sem ríghalda í þá hefð að fara í leikferðalög með sýningar sínar. Þau hafa í þetta skipti ákveðið að leggja land undir fót í fimm daga með fimm sýningar og ætla meðal annars að sýna í Árgarði í Skagafirði þann 27. apríl og í Víðihlíð þann 28. apríl. 

Leikarar í leikritinu eru tíu, fimm konur og fimm karlar. Sumir leikararnir eru gamalreyndar kanónur og aðrir eru að stíga sín fyrstu skref á leiksviði með Leikfélagi Hólmavíkur en þau eru öll jöfn í þessari stórskemmtilegu uppsetningu.

Sögusvið Nönnu systur er samkomuhús í íslensku sjávarþorpi árið 1996. Þar stendur til að setja upp söngleik um Fjalla-Eyvind. Óvæntar heimsóknir og uppákomur setja þó strik í reikninginn. Það gengur á ýmsu og útkoman er vægast sagt skrautleg.

Sýningar í leikferð:
Dalabúð í Búðardal: Miðvikudag 24. apríl kl. 20:00.
Samkomuhúsið Grundarfirði: Fimmtudag 25. apríl kl. 20:00.
Lyngbrekka í Borgarfirði: Föstudag 26. apríl kl. 20:00.
Árgarður í Skagafirði: Laugardag 27. apríl kl. 20:00.
Víðihlíð í Húnaþingi vestra: Sunnudag 28. apríl kl. 20:00.

Nánari upplýsingar um sýninguna er að finna á Facebook-síðu Leikfélags Hólmavíkur.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir