Naumur sigur á Augnabliki

Tindastóll og Augnablik mættust á Sauðárkróksvelli í gærdag í lokaleik Stólanna í C-riðli 3. deildar. Ekkert annað en sigur var á boðstólnum fyrir Stólana ef liðið hafði áhuga á að tryggja sér efsta sætið í riðlinum og helst þurfti sigurinn að vera sæmilega stór til að setja pressu á lið KB sem berst um efsta sætið við Tindastólsmenn.

Leikið var í nærri 20 stiga hita, logni og hellirigningu. Frekar óvenjulegar aðstæður en þó kjörnar til skriðtæklinga – nema vallarstjórinn sé búinn að banna slíkt. Lið Tindastóls hafði mikla yfirburði í fyrri hálfleik en gekk illa að skapa sér góð færi. Eftir 30 mínútur skoraði Ingvi Hrannar laglegt mark, setti boltann með viðstöðulausu skoti í fjærhornið eftir fína sendingu frá Pálma Valgeirs. Árni Einar og Arnar Sigurðs voru áberandi í uppspili Stólanna en leikmenn Augnabliks voru skynsamir í leik sínum og vörðust ágætlega. Staðan í hálfleik 1-0.

Kristinn Aron kom Tindastólsmönnum í 2-0 með marki á 49. mínútu og Snorri Geir gerði þriðja mark Stólanna úr vítaspyrnu þegar um stundarfjórðungur lifði af leiknum. Allt stefndi því í öruggan og fínan sigur en á 83. mínútu fékk Augnablik vítaspyrnu og úr henni skoraði markvörður liðsins, Gísli Þór Einarsson. Sigurjón Jónsson minnkaði muninn síðan í eitt mark þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma en ekki komust gestirnir lengra og Tindastóll sigraði því 3-2,

Lið Tindastóls er öruggt í úrslitakeppni 3. deildar en það er ekki ljóst hvort liðið verður í fyrsta eða öðru sæti í sínum riðli þar sem KB á tvo leiki inni og getur náð Stólunum að stigum og með (ó)hagstæðum úrslitum geta þeir skotist upp fyrir Stólana á markatölu. Það er hinsvegar alveg ljóst að ef Stólarnir ætla ekki að dúsa í 3. deildinni annað sumar þá verður leikmenn að gera betur en gegn Augnabliki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir