Nemendur frá Listaháskóla Íslands í starfsnámi

Nemendur sitja ekki auðum höndum í textíllistamiðstöðinni. Mynd:Tsb.is
Nemendur sitja ekki auðum höndum í textíllistamiðstöðinni. Mynd:Tsb.is

Þessa dagana dvelja átta nemendur frá Listaháskólanum í Reykjavík í textíllistamiðstöðinni í Kvennaskólanum á Blönduósi. Er þetta í sjöunda skipti sem nemendahópur frá Listaháskólanum kemur þangað í viku starfsnám með kennurum sínum en sá siður hefur verið við lýði frá árinu 2014. Á vef Þekkingarsetursins á Blönduósi segir að starfsmenn þar hlakki alltaf til heimsóknanna og vonist til að nemendur hafi með sér nýjar hugmyndir og þekkingu þegar þeir halda heim á ný auk ánægju með góða dvöl.

Nemendunum er boðið upp á fjölbreytta dagskrá þá daga sem þeir dvelja á Blönduósi. Ullarþvottastöðin á Blönduósi er heimsótt, svo og Heimilisiðnaðarsafnið, nemendur fá fyrirlestur um sögu textíls á Íslandi auk kennslu í útsaumi, prjóni og vefnaði. Að þessu sinni bætist við kynning á TC2 rafrænum vefstól sem staðsettur er í Kvennaskólanum. Sérfræðingar Þekkingarsetursins og Textílsetursins á sviði textíls sjá um kennsluna. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir