Norðan og norðvestan hvassviðri eða stormur og hríð í kvöld

Búast má við norðvestan stormi eða roki á norðan- og austanverðu landinu í kvöld og fram til hádegis á morgun, auk þess sem gert er ráð fyrir hríð norðanlands, eftir því sem fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Í athugasemd veðurfræðings segir jafnframt að búast megi við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum og er fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Síðdegis í dag tekur gul viðvörun gildi vegna veðurs og nær yfir Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi, Austfirði og Suðausturland.

Á Ströndum og Norðurlandi vestra má því búast við norðvestan 18-23 m/s og hviðum yfir 30 m/s í vindstrengjum ásamt snjókomu. Éljagangur með skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum vofir yfir með afmörkuðum samgöngutruflunum á vegum, einkum til fjalla. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Um miðnættið fellur gula viðvörunin úr gildi á Norðurlandi vestra og svo hver af annarri eftir því sem austar dregur fram á morguninn.

Á vef Vegagerðarinnar segir að nú í morgunsárið væri snjóþekja á Öxnadalsheiði en víða hálkublettir, hálka eða krapi á vegum norðanlands. Krapi er á Holtavörðuheiði en snjóþekja á Bröttubrekku og eitthvað er um hálkubletti eða hálku á flestum leiðum og éljagangur víða á Vesturlandi.

Textaspá fyrir Strandir og Norðurland vestra

Sunnan 8-13 m/s og slydda eða snjókoma með köflum. Hiti í kringum frostmark. Suðvestan 10-15 og stöku él á morgun, en snýst í norðan 13-18 með snjókomu annað kvöld, en hægari vindur inn til landsins. Frost 2 til 7 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:
Suðvestlæg átt, 5-13 m/s, en vestan 10-18 sunnan- og vestanlands síðdegis. Víða él, en bjart með köflum norðaustan- og austanlands. Kólnandi veður, frost 5 til 12 stig um kvöldið, en mildara við suðurströndina.

Á mánudag:
Fremur hæg breytileg átt og úrkomulítið, en gengur í suðaustan 8-15 þegar líður á daginn með snjókomu, fyrst suðvestantil. Hlýnar í veðri, slydda suðvestanlands um kvöldið.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Norðlæg átt með snjókomu eða éljum, en lengst af þurrt og bjart sunnan heiða. Frost um allt land.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir