Nú er tímabært að ræða sjávarútvegsmálin...aftur!

 Fyrningaleið, kostar hún ríkissjóð eitthvað? 

Helgi Kr Sigmundsson

 

Samfylking og Vinstri grænir vilja fyrna 5% aflaheimilda útgerða á hverju ári og innkalla þær þannig á einhverju árabili.   Ríflega 90% af þessum heimildum hefur gengið kaupum og sölum og núverandi handahafar þeirra greitt fyrir þær.  Það gleymist stundum í umræðunni að ekki skulda allar útgerðir vegna þessara viðskipta, þannig að einhverjar útgerðir eiga lítið eða ekki veðsettann kvóta.  Núverandi stjórnaflokkar verða að svara eftirfarandi tveimur spurningum vegna hugmynda þeirra um breytingar á lögum um fiskveiðistjórnarkerfið, áður en lengra er haldið. 

Í fyrsta lagi hvað verður um skuldir sem kunna að liggja að baki kvóta sem fyrna skal á hverju ári?  

Í öðru lagi hvernig verður farið með mál þeirra sem eru með óveðsettan kvóta og skal nú fyrntur verða? 

Er ríkissjóði ætlað að greiða stórfé til þeirra sem eru lítt eða ekki skuldsettir og hvaðan eiga þeir peningar að koma?  Ef ekki á að bæta neitt fyrir þessa eignaupptöku, verða þessir flokkar að gera skilmerkilega grein fyrir þeim fyrirætlunum sínum og hvernig á að framkvæma þetta.

Rétt er að minna á það að 90% aflaheimilda er hjá útgerðum sem starfa á landsbyggðinni.  Einnig verðum við að halda því til haga að þegar 5% aflaheimilda eru fyrnd á hverju ári, kemur 90% af þeirri fyrningu frá þessum sömu útgerðum á landsbyggðinni.  Þetta er aðför að landsbyggðinni og atvinnustarfsemi þar.  Snarlega mun draga úr fjárfestingu í Sjávarútvegi og það mun á endanum leiða til rýrnunar (eða á að segja, fyrningar?) verðmæta, t.d. fasteigna á landsbyggðinni.  Hvernig getur þetta verið annað en sértæk skattlagning á landsbyggðina? 

Verði þessi fyrningarleið fyrir valinu og gefum okkur að útgerðir um allt land leigi til baka sem nemur svipuðum tonnafjölda og áður var gerður upptækur hjá hverjum og einum.  Væntanlega munu greiðslur þá renna í einhvern tiltekin sjóð á vegum Sjávarútvegsráðuneytins.  Nú virðist blasa við að greiðslurnar í þann fyrningasjóð munu koma að verulegu leyti (um 90%) frá útgerðum á landsbyggðinni.  Þá er rétt að velta eftirfarandi fyrir sér.  Hvernig verður þessum sjóði ráðstafað?  Verður honum ráðstafað 90% á landsbyggðinni eða verður hlutfallið annað og minna þar?

Það er eðlileg krafa kjósenda að fá svör við þessum spurningum, áður en þeir leggja mat á stefnu þessara flokka í sjávarútvegsmálum. 

 

Handfæraævintýri Steingríms J. - Í boði hverra?

Fréttatilkynning barst frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þann 16. apríl 2009, sem vert er að staldra við.  Þar eru reifaðar fyrirætlanir ráðherrans um að leggja af byggðakvóta og kynnt áform um s.k. strandveiðar.  Þessi áform njóta stuðnings rikisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar. 

Skammtíma afleiðing þessarar tilkynningar er að í NV kjördæmi eru skyndilega allt að 200 störf í uppnámi.  Þar má nefna fyrirtæki eins og Perlufisk á Bíldudal og geri ég ráð fyrir að þau séu fleiri í þessari stöðu.  Ráðherra ætlar að eyrnamerkja þessum strandveiðum um 8127 tonnum af óslægðum fiski.  6127 tonn tilheyrðu því sem áður var byggðakvóti en ráðherrann ætlar að bæta við 2000 tonnum.   Margir velta því fyrir sér hvaðan ráðherra muni taka þessi 2000 tonn.  Á að taka þau e.t.v. frá útgerðum í sama byggðarlagi sem hafa t.d. gert út á línu? 

Stór hluti þessara veiðiheimilda liggja í ýsu (1893 tonn) og steinbít (265 tonn), og má skilja fyrirætlanir ráðherrans sem svo að þessi fiskur verði sóttur á handfæri!  Áttu annann?  Eigum við von á fleiri viðlíka ráðherratilskipunum í framtíðinni, sem eru studdar jafn faglegum ráðleggingum?

Hinar boðuðu strandveiðar eða handfæraveiðar, munu hygla sumarveiðimönnum og verða á kostnað þeirra sem sjá fjölskyldum sínum farborða með atvinnuveiðum allan ársins hring.  Það eru þeir sem byggja samfélögin hér sem eiga að líða fyrir hálfgerðar tómstundaveiðar sem vandséð er að verði arðbærar fyrir þjóðarbúið.

Ætli nokkrir aðrir en auðmenn eigi tök á því, að taka þátt í þessum fyrirhugðu handfæraveiðum Steingríms J. á arðbæran hátt?  Það er vandséð að fjárfesting í báti, búnaði og nauðsynlegum leyfum geti staðið undir sér eins og þessi tilskipun gerir ráð fyrir að veiðum verði háttað.  Því verður enn erfiðara fyrir eignalitla aðila að taka þátt í þessu með annarri eins áhættu og þarna er boðið uppá.  Þeir sem vilja fara þessa leið verða að svara því hvort bankarnir muni standa áhugasömum opnir til lánveitinga og greiða götu þeirra vegna óhjákvæmilegrar fjárfestingar sem fylgir þessum veiðum? 

Reyndar gleymdi ég einum hópi sem getur sótt sér mikið fé með boðuðum handfæraveiðum.  Það eru þeir sem hafa selt kvóta og eru nú tilbúnir með bæði fullbúinn bát til veiðanna og góðar innistæður á reikningum sínum, þeir geta einmitt í sumar farið og róið við hlið þeirra manna sem þeir hafa t.d. nýlega selt þennan kvóta.  Er þetta réttlátt?

Það er engin landvinnsla sem byggir á handfæraútgerð og því eru þessi áform ráðherrans afturför.  Í gamla sóknarmarkskerfinu var meirihluta aflans ekið óunnum, út af svæðinu og skapaði því færri störf hér en fiskur veiddur í önnur veiðarfæri.  Er eitthvað vit í þessu?

 

Um skuldir sjávarútvegsins, "sægreifa" og vini þeirra.

Við megum ekki gleyma því að aflamarkskerfinu var komið á 1983 af m.a. Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J., sem síðan hafa reyndar bæði skipt um flokk og stefnu í þessum málaflokki.  Aflamarkskerfið var sett á til þess að vernda ofveidda fiskistofna og ekki síður til þess að auka hagræðingu og arðsemi í sjávarútvegi.  Á níunda áratug síðustu aldar bjó atvinnugreinin einmitt við gríðarlega erfið skilyrði og rekstrarvanda, og með þessari lagasetningu var í raun ákveðið að greinin myndi taka á þessu innan frá. Það var gert og þannig varð til stór hluti skulda sjávarútvegsins.  Það er rétt að halda því til haga í þessu sambandi, að enginn 20 þingmanna Sjálfstæðisflokksins, greiddi frjálsa framsalinu atkvæði sitt þegar það var samþykkt fyrst á Alþingi 15. febrúar 1990.

 

Helgi Kr. Sigmundsson, skipar 10. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir