Er að rifja upp gamlan bræðing sem ég hef gaman af / MARGEIR FRIÐRIKS

Friðrik Margeir Friðriksson er Skagfirðingur í húð og hár, býr á Sauðárkróki og af hinum eðalárgangi 1960. Margeir segist klæmast á kassagítar og basla við bassaleik og leikur hann núna í húsbandi Leikfélags Sauðárkróks en verið er að æfa nýtt leikrit sem samið er í kringum lög Geirmundar Valtýssonar. Margeir settist við tölvuna og svaraði nokkrum laufléttum spurningum í Tón-lystinni.

Helstu tónlistarafrek: -Afrekin eru ekki mörg, en ég hef leikið í nokkrum hljómsveitum með afreksmönnum í gegnum tíðina s.s. Blueberry Jam, Jókó, Capital, Rót, Umrót, Týról. Einnig hef ég tekið þátt í ýmsum öðrum tónlistarviðburðum með Félagi harmonikkuunnenda í Skagafirði, Leikfélagi Sauðárkróks, V.S.O.T., Multi Musica og svo margt fleira sem ég veit um en man ekki eftir.

Uppáhalds tónlistartímabil? -Það er óræð stærð, því ég flakka fram og aftur í tíma.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?  -Ég er að rifja upp gamlan bræðing sem ég hef gaman af og er meðal annars að hlusta á fiðluleikara sem heitir Jean-Luc Ponty og Al Di Meola gítarleikara. 

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? -Það voru ekki til hljómflutningstæki sem dugðu, svo ég verð að segja að hlustað var á flest það sem heyrðist í ríkisútvarpinu (gömlu Gufunni) í þá daga.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? -The Road Goes On Forever með Allman Brothers Band.

Hvaða græjur varstu þá með?  -Technics samstæðu.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? -Ég syng ekki í sturtu.

Bítlarnir eða Bob Dylan? -Bítlarnir

Uppáhalds Júróvisjónlagið?-Eitt lag enn.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? -Ég myndi treysta á lög með Geirmundi Valtýssyni til að byrja með.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? -Þjóðlegan fróðleik með tríói Guðmundar Ingólfssonar.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? -Ætli ég myndi ekki fara á tónleika á Flæðunum á Króknum með Lilla apa í Brúðubílnum og tæki Helga Frey son minn með að minnsta kosti.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? -Ég sjálfur með kostum og göllum, en ég lít upp margra sem ég geri ekki upp á milli.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? -Gling-Gló með Björk og Tríói Guðmundar Ingólfssonar.

Vinsælustu lögin á Playlistanum:

Peppi  (Har Kommer Pippi Langstrump) / Lenni-Kalle Taipale Trio
Black Friday / Steely Dan
Why does love got to be so sad? / Derek & The Dominos
Brú›kaupsvísur / Þursaflokkurinn
Early Autumn / Mezzoforte

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir