Ný plata með Ásgeiri Trausta væntanleg
Laugbakkingurinn Ásgeir Trausti sló eftirminnilega í gegn sumarið 2012 þegar hann sendi frá sér dýrgripinn Dýrð í dauðaþögn sem var stútfullur af frábærum lögum. Síðan hefur hann ferðast um allan heim og sungið og leikið við góðan orðstír. Í byrjun febrúar á næsta ári stendur til að þriðja breiðskífa Ásgeirs, Sátt, líti dagsins ljós en nú í vikunni var fyrsta lagið af henni sett í spilun en það kallast Bernska eða Youth upp á engilsaxneskuna.
Platan verður fáanleg bæði á íslensku og ensku og ber þá titilinn Bury the Moon. Ásgeir gerði á sínum tíma enska útgáfu af Dýrð í Dauðaþögn og kallaði hana In the Silence. Önnur breiðskífan kom út 2017 og kallaðist Afterglow og var hún elektrónískari en sú fyrsta. Í frétt á RÚV er haft eftir Ásgeiri að hann hafi langað að byrja á nýrri plötu um leið og hann lauk tónleikahaldi sem fygldi Afterglow. Kappinn hélt því í sjálfskipaða útlegð á Laugarvatni til að fá næði til að vinna að plötunni og var á skömmum tíma kominn með 20 ný lög.
„Mig langaði að fara eitthvert burt og fókusa alfarið á þetta svo ég var einn í tæpan mánuð,“ segir hann. Hann áttaði sig fljótt á að hann vildi fara aftur í upprunann á nýju plötunni, taka upp kassagítar og fikra sig frá elektró-áhrifunum. Hann segist þó hafa endað á að setja inn nokkur lög sem voru aðeins af öðrum meiði en Ásgeir er á því að lögin myndi skemmtilega heild.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.