Nýr leikskóli byrjar á morgun
Á morgun mæta leikskólabörn á Sauðárkróki í breyttan leikskóla eftir sumarfrí. Yngra stigið, frá eins árs gömlum börnum til þriggja ára, verða á Glaðheimum en eldra stigið, þriggja til sex ára mæta í nýja leikskólann við Árkíl. Búið er að sameina leikskólana á Sauðárkróki undir eina stjórn og heitir nú Ársalir en við sameininguna leggst starfsemi niður á Furukoti og Krílakoti.
Starfsfólk nýja leikskólans ásamt iðnaðarmönnum vinna nú hörðum höndum að því að koma öllu í röð og reglu áður en krakkarnir birtast í dyrunum í fyrramálið en hamagangur var í öskjunni þegar blaðamaður leit við í gær. Þar voru margar hendur að setja bækur í hillur, eldhúsáhöld á sinn stað, raða borðum, sauma sængur, festa hillur og tengja rafmagnsvíra svo eitthvað sé nefnt.
Húsið er allt hið glæsilegasta og aðstaða barnanna og ekki síður kennaranna verður með besta móti en þar munu sex deildir rúma alls 120 börn. Nýr leikskólastjóri, Anna Jóna Guðmundsdóttir, hefur verið ráðin leikskólastjóri Ársala.
.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.