Nýtt þjónustuhús rís á Blönduósi

Jakob Svavarsson tekur fyrstu skóflustunguna. Mynd: Húni.is
Jakob Svavarsson tekur fyrstu skóflustunguna. Mynd: Húni.is

Fyrsta skóflustungan að nýju þjónustuhúsi sem Ámundakinn ehf. byggir við Hnjúkabyggð 34 á Blönduósi var tekin á föstudaginn og var það Jakob Svavarsson, mjólkurbílstjóri, sem það gerði. Húsið er 550 m2 og að mestu á einni hæð. Verkfræðistofan Stoð ehf. sá um hönnun og burðarþolsteikningar. Áhersla hefur verið lögð á að semja við verktaka innanhéraðs vegna vinnu við bygginguna.

Mjólkursamsalan mun leigja húsið og þar verður miðstöð fyrir mjólkursöfnun í Húnavatnssýslum og Skagafirði. Með tilkomu hússins gjörbreytist vinnuaðstaða bílstjóra til hins betra en öll þrif og millidæling verða innandyra. Einnig verða allir bílar og hluti tanka geymdir inni. Í húsinu verða einnig tvö hvíldarherbergi til afnota fyrir bílstjóra sem eru í flutningum milli Selfoss og Akureyrar. Áhersla verður lögð á orkusparnað í rekstrinum og í húsinu verða m.a. tengingar fyrir rafhleðslu bíla. 

Fleiri fréttir