Opin vinnstofa hjá Hrefnu

Í bílskúrnum að Urðarbraut 18 á Blönduósi er lítil vinnustofa þar sem Hrefna Aradóttir listakona vinnur skemmtilegt handverk. Öllum er velkomið að líta inn hjá Hrefnu og sjá hvað hún er að fást við fyrir jólin.

-Yfirleitt er ég við vinnu mína frá 10.00 til 18.00, virka daga en ef óskað er eftir að líta við utan þess tíma er velkomið að hringja, segir Hrefna en hún svarar í síma 860-2066.

Margt skemmtilegra muna er til sölu að Urðarbraut 18 en Hrefna er hvað þekktust fyrir að tálga úr íslenskum alaskavíði. -Ég hef mest unnið af jólasveinum, bæði litlum og stórum en einnig tálga ég fermingarstyttur og brúðhjón eftir pöntunum. Það gæti verið skemmtilegt að líta inn hjá Hrefnu og kynnast því hvernig viðurinn lifnar við í höndum listakonunnar og í leiðinni athuga hvort ekki væri komin hugmynd að skemmtilegri jólagjöf.

Fleiri fréttir