Orkusalan gefur hleðslustöðvar

Orkusalan ætlar að gefa hleðslustöðvar um allt land.
Orkusalan ætlar að gefa hleðslustöðvar um allt land.

Í morgun tilkynnti Orkusalan að fyrirtækið muni gefa öllum sveitarfélögum á landinu hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla. Kostnaður við verkefnið gæti numið ríflega 200 milljónum króna. Með gjöfinni vill fyrirtækið ýta undir rafbílavæðingu í landinu og ýta við fyrirtækjum og stofnunum að setja upp slíkar stöðvar við bílastæði sín.

Með framtakinu er ætlun fyrirtækisins að gera rafbílaeigendum auðveldara að ferðast um landið en hingað til hefur það verið illmögulegt vegna fárra hleðslustöðva á Íslandi. Eftir að stöðvarnar sem Orkusalan ætlar að gefa verða settar upp geta eigendur rafbíla keyrt hringinn í kringum landið, með fullan rafgeymi,að því er fram kemur í tilkynningu frá Orkusölunni.

„Við erum að spýta inn í háræðanetið, ef svo má segja,“ sagði Hafliði Ingason, sölustjóri Orkusölunnar, sem er í eigu RARIK, í samtali við Ríkisútvarpið í dag. Fyrirtækið vilji sýna samfélagslega ábyrgð. „Við tökum fyrsta skrefið en erum um leið vonandi að ýta einhverju af stað, þannig að þegar hleðslustöð er komin upp í sveitarfélagið þá sjái minni fyrirtæki og stofnanir ástæður til þess að setja upp svona stöð hjá sér.“

Hafliði segir uppsetninguna einfalda og taka stuttan tíma. Fyrsta stöðin verður sett upp í Vestmannaeyjum en Hafliði segir að ekki hafi verið rætt við öll sveitarfélög á landinu um verkefnið. Flest þeirra hafi tekið mjög vel í það og gera þau flest ráð fyrir því að stöðvarnar verði settar upp við stjórnsýsluhúsin. Eins komi sundlaugar til greina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir